Fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur varað við því að skuldastaða ríkisins gæti farið að valda miklum efnahagslegum vandræðum. Ríkissjóður Bandaríkjanna hefur náð lögbundnu skuldahámarki sínu – tæplega 14.300 milljörðum dollara.
Tim Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, skrifaði Harry Reid, leiðtoga demókrata í öldungadeild bandaríska þingsins, bréf þar sem fram kemur að áðurnefndu skuldaþaki hafi verið náð. Útgáfa bandaríska ríkisins á skuldaviðurkenningum hefur verið stöðvuð fyrir vikið, svo ekki verði farið yfir hámarkið. Geithner hefur biðlað til bandarísku öldungadeildarinnar að hækka skuldaþakið, svo að „hægt sé að halda fullri tiltrú og lánstrausti á Bandaríkin og komast hjá efnahagslegum hamförum allra borgara landsins,” eins og það er orðað í bréfinu til Reid.
Gripið hefur verið til þess ráðs að breyta fyrirkomulagi inngreiðslna í lífeyrissjóði opinerra starfsmanna og bókfæra skuldirnar vegna sjóðanna með öðrum hætti. Þetta mun losa um 224 milljarða dollara í bandaríska ríkisrekstrinum, sem fær um 120 milljarða dollara lánaða á markaði í hverjum mánuði til að viðhalda hallarekstri ríkisins. Samkvæmt áætlunum fjármálaráðuneytisins munu þessar tímabundnu aðgerðir hætta að virka 2.ágúst næstkomandi. Þá mun annað hvort þurfa að skera harkalega niður í ríkisrekstrinum, ellegar lenda í greiðslufalli. „Greiðslufall myndi ekki aðeins hækka fjármögnunarkostnað bandaríska ríkisins, heldur líka hjá fjölskyldum, fyrirtækjum og ríkjum – sem dregur úr fjárfestingu og atvinnusköpun í öllu hagkerfinu,” sagði Geithner í öðru sendibréfi, sem hann sendi öldungadeildarþingmanninum Michael Bennet fyrir helgi.