Það hefði jafnast á við stórslys ef íslensk stjórnvöld hefðu ákveðið að ábyrgjast skuldir bankanna árið 2008. Þetta sagði Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, á fundi hjá Englandsbanka fyrir skömmu.
Í erindi sínu benti Már á að íslensk stjórnvöld hefðu reynt að semja um gjaldeyrisskiptasamninga við Englandsbanka, Seðlabanka Evrópu og Bandaríska seðlabankann á árinu 2008. Allir hefðu sagt nei við Ísland, og bent á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Alþingi hafi samþykkt í maí 2008 að veita Seðlabanka Íslands heimild til að taka allt að fimm milljarða evra að láni til að stækka gjaldeyrisvaraforðann. Sú heimild sé hins vegar enn að mestu ekki verið nýtt.
Fram kom í erindi Más að skuldir bankanna í erlendri mynt á miðju ári 2008 hafi numið um 750% sem hlutfall af vergri landsframleiðslu Íslands. Allur forði Seðlabankans auk ádráttarlína og gjaldmiðlaskiptasamninga hafi hins vegar samsvarað um 21% vergrar landsframleiðslu.
Sagði Már að formleg slit bankanna með aðkomu skilanefnda hafi verið eina mögulega lausnin fyrir Ísland, enda hefði veiting ríkisábyrgðar á skuldum þeirra jafngilt stórslysi.
Benti seðlabankastjórinn á að samvinna milli landa vegna gjaldþrots íslensku bankanna hefði verið ábótavant. Þannig hefðu „góðar eignir“ verið seldar snemma úr þrotabúunum, en Már ræddi ekki hvaða eignir það væru. Að sama skapi hefði hryðjuverkalöggjöf Breta, frysting eigna og lokun Kaupþing Singer&Friedlander sett Kaupþing á hausinn.