Olli Rehn, yfirmaður efnahagsmála í Evrópusambandinu, segir að Grikkir verði að hraða umbótum í efnahagsmálum.
„Ég segja það alveg skýrt að Grikkland verður að hraða umbótum í efnahagsmálum og setja fram heildstæða einkavæðingarstefnu,“ sagði Rehn í samtali við þýska blaðið Die Welt.
Grikkland hefur þegar fengið lán að upphæð 110 milljarða evra en talið er að landið þurfi 60 milljarða evra til viðbótar til að geta staðið við skuldbindingar sínar næstu tvö árin.
Mikil andstaða er við frekari aðstoð við Grikki í löndum eins og Þýskalandi og Finnlandi. Rehn segir að Grikki sjálfir verði að gera breytingar heima fyrir áður en meiri aðstoð við þá verði samþykkt.
Georges Papandreou forsætisráðherra Grikklands sagði að einkavæðing væri forgagnsverkefni ríkisstjórnar sinnar. Hann sagði hins vegar ekki koma til greina að Grikkir seldu eyjar eða sögulega staði til að geta staðið við skuldbindingar sínar. Nokkrir þýskir stjórnmálamenn hafa nefnt slíka tillögu í umræðum um vanda Grikkja. Papandreou sagðist líta á slíkar tillögur sem móðgun.