Sérfræðingur alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch Ratings segir, að hugsanlega verði skuldabréf íslenska ríkisins í ruslflokki næstu tvö árin eða þar til gjaldeyrishöftunum verður aflétt að fullu.
Íslensk stjórnvöld gera raunar ráð fyrir því að gjaldeyrishöft verði áfram í gildi til 2015.
Fitch breytti í gær horfum fyrir lánshæfiseinkunn Íslands úr neikvæðum í stöðugar. Einkunnin er hins vegar óbreytt, BB+, sem þýðir að íslensk ríkisskuldabréf eru flokkuð í svonefndum ruslflokki.
Paul Rawkins, sem fer með málefni Íslands hjá Fitch, segir við Bloomberg fréttastofuna, að þessar breyttu horfur bendi til þess, að lánshæfiseinkunnin muni ekki breytast á næstu 12-24 mánuðum.
Þá segir hann mikilvægt að aflétta gjaldeyrishöftunum vegna þess að það bendi til þess að búið sé að takast á við það ójafnvægi, sem ríkt hafi í peningamálum þannig að gengi krónunnar ákvarðist af stöðu efnahagsmála.