Fjármálaráðherrar í Evrópu hafa nú í fyrsta skipti vakið máls á þeirri hugmynd að Grikkland njóti hagfelldari endurgreiðsluskilmála á neyðarlánum sem veitt voru í maí 2010.
Umræður um breytta endurgreiðsluskilmála myndu fara fram við eigendur skuldabréfa gríska ríkisins. Enda var í raun skuldabréfaeigendum bjargað, fremur en gríska ríkinu, við veitingu neyðarlánsins í fyrra. Lánið í fyrra hljóðaði upp á 110 milljarða evra, eða tæplega 18.000 milljarða króna. Markaðir hafa hins vegar ekki öðlast aukna trú á Grikkland eftir lánið, heldur þvert á móti.
Jean Claude Junker, forsætisráðherra Lúxemborgar, nefndi í dag í samtali við Bloomberg að til stæði að hefja viðræður við skuldabréfaeigendur, svo hægt sé að framkvæmda „mjúka endurskipulagninu,” eins og ráðherrann orðaði það. Juncker sagðist andsnúinn meiriháttar endurskipulagninu á skuldum Grikklands. Talið er líklegast að Grikkir fái lengingu á lánum sínum.
Umræður af þessu tagi marka hins vegar ákveðin þáttaskil, þar sem hingað til hafa björgunaraðgerðir til handa evruríkjum í vanda alfarið verið á kostnað skattgreiðenda í ESB, en skuldabréfaeigendur hafa fengið sitt greitt upp í topp. Svo virðist einnig sem stjórnmálamenn í Evrópu séu smátt og smátt að verða sammála markaðnum, sem sér fátt annað í spilunum fyrir Grikkland en greiðslufall af einhverju tagi. Bill Gross, forstjóri PIMCO, eins stærsta eignastýringarfyrirtækis á sviði skuldabréfa í heimi, sagði þannig fyrir skömmu að hans fyrirtæki liti svo á að Grikkland væri gjaldþrota, og á einhverjum tímapunkti væri ekki lengur hægt að rúlla skuldum þeirra lengra áfram. Fjármálaráðherrar Belgíu og Frakklands lýsti hins vegar í dag andstöðu við nokkurs konar endurskipulagningu skulda Grikklands, stóra eða smá. Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, orðaði það sem svo að endurskipulagning væri „út af borðinu.”