Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn leggur á það áherslu að gríska ríkisstjórnin verði að flýta þeim umbótum sem settar voru sem skilyrði gegn veitingu 110 milljarða evra neyðarláns í maí 2010.
Að öðrum kosti mun efnahagslegri endurreisn landsins verða stefnt í hætti. „Nauðsynlegt er að hagræðingu í opinbera kerfinu verði flýtt verulega,” sagði Poul Thomsen, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Evrópu. Kom þetta fram á málþingi viðskiptatímaritsins Economist, sem haldið er nærri Aþenu, höfuðborg Grikklands. Thomsen, ásamt hátt settum embættismönnum hjá framkvæmdastjórn ESB, ræða nú um hvort Grikkland verði veitt einhvers konar fyrirgreiðsla á 12 milljarða evra gjalddaga sem nálgast nú óðum. Grikkland fékk 110 milljarða evra að láni til þriggja ára, fyrir ári síðan. Peningarnir voru nýttir til að greiða upp skuldabréfaflokka sem gríska ríkið hafi gefið út á árum lágs vaxtastigs um allan heim. Lánsféð nýttu Grikkir til að viðhalda hallarekstri ríkisins þar í landi.
Grikkir skáru ríkisútgjöld niður um fimm prósent á síðasta ári. Hins vegar náðu yfirvöld þar í landi ekki markmiðum sínum, sökum hægari efnahagsbata en vonast hafði verið eftir. Merki eru um örlítinn hagvöxtum í Grikklandi á fyrsta fjórðungi. Tekjuáætlun gríska ríkisins hefur hins vegar ekki haldist í horfinu, meðal annars vegna þess að ekki hefur gengið nægilega vel að skera niður tröllaukinn ríkisrekstur. Grikkir ætli sér að selja ríkiseignir og einkavæða fyrirtæki. Þau áform hafa hins vegar gengið of hægt, en önnur lönd á evrusvæðinu vilja sjá meiri árangur í þeim efnum áður en Grikkjum verður bjargað, aftur.
Heildarskuldir gríska ríkisins nema um 340 milljörðum evra. Afar ólíklegt er talið að Grikkland geti sótt sér fé á fjármagnsmarkaði til að mæta þeim gjalddögum þeirra skulda. Mikil andstaða er hins vegar við afskriftir eða endurskipulagningu skulda Grikklands. Jurgen Stark, sem situr í bankaráði Evrópska seðlabankans, hefur til dæmis sagt að slíkar aðgerðir myndu jafnast á við stórslys. En margir stærstu bankar Evrópu eru eigendur skuldabréfa gríska ríkisins.