Heimsmarkaðsverð á olíu hefur hækkað í morgun í kjölfar þess að bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs gaf út nýja spá þar sem meðal annars kemur fram að heimsmarkaðsverð á fati af Brent-olíu verði komið í 130 Bandaríkjadali um næstu áramót. Verð á framvirkum samningum um afhendingu á Brent-olíu í júlí fór í 112 dali í morgun. Heimsmarkaðsverð á annarri olíu hefur hækkað um ríflega dal í morgun og var komið í 98,7 dali á fatið í morgun.
Samkvæmt Goldman Sachs verður fatið á Brent-olíu komið í 130 dali um næstu áramóti. Fyrri spá bankans hafði gert ráð fyrir að verðið færi í 120 dali. Ástandið í Líbíu er helsta ástæðan fyrir hækkandi olíuverði að mati Goldman. Áður en að borgarastríðið braust út framleiddi líbíski olíuiðnaðurinn um 1,6 milljón fata á dag en framleiðslan hefur að stærstum hluta lagst af á undanförnum mánuðum. Sérfræðingar Goldman segja að minna framboð vegna þessa auk minni framleiðslu í ríkjum sem eiga ekki aðild að samtökum Olíuútflutningsríkja (OPEC).
Fram kemur í frétt AP-fréttastofunnar að sumir sérfræðingar séu ekki jafn svartsýnir á þróunina á heimsmarkaðsverði á olíu. Meðal annars vegna þess að búist er við að minni eftirspurn frá stærstu hagkerfum heims, Kína og Bandaríkjunum, vegna minnkandi hagvöxt muni halda niður heimsmarkaðsverði á olíu á seinni hluta ársins.