Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í maí hækkaði um 0,94% frá fyrra mánuði samkvæmt útreikningu Hagstofunnar. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,4% og undanfarna þrjá mánuði um 2,7% sem jafngildir 11,2% verðbólgu á ári.
Vísitala án húsnæðis hækkaði um 0,73% í maí, um 3,1% síðustu 12 mánuði og 10,3% síðustu þrjá mánuði.
Hækkun vísitölunnar nú er ívið meiri en greiningardeildir banka og fjármálafyrirtækja spáðu en spár voru almennt um 0,7-0,8% hækkun.
Hagstofan segir, að gjöld fyrir heitt vatn og frárennsli hafi hækkað um 10% og flugfargjöld til útlanda um 15,5%. Kostnaður vegna viðhalds og viðgerða á húsnæði jókst um 3,7%, þar af voru 0,12% áhrif vegna leiðréttingar á vinnulið byggingarvísitölu. Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvörum um 0,8%.