Greiningardeild Arion banka segir, að útlit sé fyrir að verðbólga færist nú fjær verðbólgumarkmiði Seðlabankans. Í því felist verulegur vandi fyrir Seðlabankann.
„Bankinn stendur á ákveðnum krossgötum í augnablikinu. Mun Seðlabankinn hækka vexti ofan í þann efnahagsslaka sem er til staðar? Að mati Greiningardeildar er Seðlabankinn hins vegar að kljást við margfalt stærra vandamál (...) en það snýr að trúverðugleika peningastefnunnar. Seðlabankinn er nú að lenda í því að fara inn í enn eitt verðbólguskeiðið án þess að nægur trúverðuleiki sé til staðar," segir í Markaðspunktum Arion banka.
Segir bankinn, að í raun sé hægt að færa rök fyrir því að vaxtahækkun yrði til þess fallin að hafa verðbólguhvetjandi áhrif að því leyti að vaxtahækkun hækki fjármagnskostnað ríkis og fyrirtækja, sem skili sér út í verðlagið á endanum.
Arion banki segir, að Seðlabankinn sé ekki einn um að vera í vandræðum vegna sívaxandi verðbólgu. Stjórnvöld séu líka komin í ákveðinn bobba þar sem fyrr í mánuðinum var undirritaður kjarasamningur sem innihélt m.a. forsendur um stöðugt verðlag og að ársverðbólgan verði undir 2,5% verðbólgumarkmiði í árslok 2012. Þá megi ekki gleyma þeim verðbólguáhrifum sem hinir nýju kjararsamningar muni án efa hafa á næstunni.