Fjármálaráðuneytið segist ekki tapa á lausafjárfyrirgreiðslu

Fjármálaráðherra.
Fjármálaráðherra. Kristinn Ingvarsson

Fram kemur í athugasemd sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér vegna forsíðufréttar Morgunblaðsins í dag að ríkissjóður muni ekki bera kostnað vegna lausafjárfyrirgreiðslu í tengslum við yfirtöku Arion-banka á innistæðum í SPRON.

Eins og greint hefur verið frá í Morgunblaðinu þá gaf fjármálaráðuneytið út skaðleysisyfirlýsingu á í tengslum við yfirtöku Arion á innlánunum. Arion fékk skuldabréf vegna innistæðnanna með veð í öllum eignum Dróma, móðurfélags þrotabús Spron. Verðmæti skuldabréfsins í dag er um 77 milljarðar króna.

Fram kemur í skýrslu fjármálaráðherra að ríkið hafi staðfest með bréfi dagsettu þann 3. september 2009 að lána Arion allt að 75 milljarða í ríkisskuldabréfum með veði í skuldabréfi SPRON. Þessi samningur verður í gildi þangað til lokagjalddagi SPRON-skuldabréfsins rennur upp á árinu 2014. Það sem vekur sérstaka athygli í skýrslu fjármálaráðherra er að í bréfinu kemur fram að ríkið muni „gera sitt besta til að fá Seðlabankann til að taka skuldabréf SPRON beint sem veð í þeim tilgangi að veita aðgengi að lausafé“. Ennfremur er tekið fram að ríkið hafi lýst því yfir í bréfinu að það væri reiðubúið til frekari samninga um lausafjárfyrirgreiðslu vegna annarra útlána en þeirra er komu úr SPRON.

Tilraun ríkisins til þess að fá Seðlabankann til þess að taka við SPRON-bréfinu hefur ekki borið árangur, en eins og kom fram í frétt Morgunblaðsins í desember þá neitaði Seðlabanki Íslands að taka við skuldabréfinu þegar Arion vildi láta reyna á lausafjárfyrirgreiðsluna sem ríkið hét vegna yfirtökunnar á innistæðunum í SPRON. Þar sem að Seðlabankinn hefur ekki talið Dróma-bréfið hæft til veðlánaviðskipta hefur fjármálaráðuneytið þurft að láta Arion banka fá veðhæf ríkisbréf til þess standa við sinn hluta samkomulagsins.

Í skýrslu slitastjórnar SPRON sem lögð var fram á kröfuhafafundi í apríl kemur fram að bókfært verð eigna þrotabúsins nam um 106 milljörðum um síðustu áramót. Heildarkröfur í búið nema um 200 milljörðum en forgangskröfur í formi skuldabréfsins sem gefið var út í tengslum við yfirtöku Arion á innlánum námu um 77 milljörðum. Slitastjórn telur að almennir kröfuhafar muni fá um 6,7% af kröfum sínum greiddar upp. Ekki verður annað lesið úr skýrslu slitastjórnar fyrir kröfuhafafund en að slík óvissa ríki. Þrátt fyrir að matið kveði á um að greitt verði upp í almennar kröfur ríkir óvissa um endalegt virði eigna þrotabúsins.

Samkvæmt skýrslunni nam bókfært virði lánabóka SPRON og Frjálsa fjárfestingarbankans 77,4 milljörðum um áramótum. Útlánasafnið tengist að stærstum hluta fasteignaviðskiptum. Samkvæmt slitastjórninni eru 77% af heildarútlánum með veð í fasteignum en tekið er sérstaklega fram í kröfuhafaskýrslunni að undirliggjandi eignir margra þessara útlána séu yfirveðsettar. Virði eignasafnsins er þar af leiðandi mjög háð þróun á fasteignamarkaðnum á næstu árum. Í niðurstöðukafla skýrslu slitastjórnar kemur fram að það sé skoðun hennar að fasteignamarkaðurinn hafi nú þegar rétt úr kútnum og búast megi við að hann styrkist enn frekar á næstunni.

Óvissan ríkir ekki eingöngu um gæði eignasafnsins vegna stöðunnar á fasteignamarkaði – nýlegir dómar varðandi gengistryggð lán hafa einnig gert strik í reikninginn. Fram kemur í skýrslu slitastjórnarinnar að úrskurður Hæstaréttar í upphafi þessa árs hafi gert nánast öll gengistryggð lán Frjálsa ólögmæt og hluta gengislána SPRON. Áætlaður skaði fyrir lánabókina er um 10 milljarðar en þess er getið í skýrslunni að lögmæti fleiri lána sem tengjast erlendum gjaldmiðlum eigi eftir að skýrast í kjölfar meðferðar dómstóla.
Gangi áætlanir slitastjórnarinnar ekki eftir þarf íslenska ríkið að borga Arion skaðann samkvæmt samkomulagi sem gert var við fjármálaráðuneytið á sínum tíma. Í krafti þessa samkomulags hefur Arion meðal annars fengið heimild frá Fjármáleftirlitinu til þess að færa Dróma-bréfið til bókar sem áhættulausa eign. En á sama tíma er þessarar virku ríkisábyrgðar á bréfinu ekki getið í ríkisreikningi þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi gert við það athugasemd. Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Kristjáns Þórs Júlíussonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um hvers vegna þessarar ábyrgðar væri ekki getið í ríkisreikningi kemur fram að ekki hafi þótt ástæða til að færa hana til bókar sökum þeirrar yfirlýsingar stjórnvalda um að ríkið ábyrgðist allar innistæður í íslenskum bönkum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK