Bankar vanmátu virði hlutabréfa samskiptavefjarins LinkedIn langt út fyrir eðlileg mörk fyrir útboð bréfanna fyrr í mánuðinum, að mati Peter Thiel, sem er hluthafi í Facebook og einn af stofnendum PayPal.
Bandarísku bankarnir Morgan Stanley, Bank of America Merrill Lynch og JPMorgan Chase mátu virði hlutabréfa LinkedIn á 45 dali á hlut, sem þýddi að fyrirtækið fékk um 352 milljónir dala í útboðinu. Á fyrsta degi viðskipta tók gengi bréfanna hins vegar stórt stökk og meira en tvöfaldaðist.
Sérvaldir viðskiptavinir bankanna, sem fengu að kaupa bréfin á útboðsgengi, græddu því mjög á viðskiptunum, sem og aðrir spákaupmenn á markaði. Telur Thiel að ef bankarnir hefðu haldið rétt á spilunum hefði LinkedIn getað fengið mun meira fé í gegnum hlutabréfaútboðið. Hann segir að fjármálamenn á Wall Street hafi ákveðna andúð á tæknifyrirtækjum og eigi erfitt með að trúa því að virði þeirra sé raunverulegt.
Önnur netfyrirtæki munu krefjast betri kjara
Í frétt Financial Times er haft eftir Richard Green, prófessor í fjármálahagfræði, að ný internetfyrirtæki séu venjulega undirverðmetin af því að mjög erfitt er að verðmeta nýja tækni. Undirverðmatið sé hins vegar að meðaltali um 15 prósent, en ekki 100 prósent eins og í tilviki LinkedIn.
Afleiðingin af þessu klúðri bankanna gæti orðið sú að internetfyrirtæki eins og Groupon, Zynga, Twitter og Facebook, muni krefjast betri kjara hjá bönkunum þegar þau huga að hlutafjárútboði á næstu mánuðum.