Tveir einstaklingar, sem sátu í stjórn Byrs sparisjóðs á tímabilinu frá október til desember 2008, sögðu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, að 800 milljóna króna yfirdráttarlán til Tæknisetursins Arkea, sem síðar hét Exeter Holding, í október hafi ekki verið borið undir stjórn sparisjóðsins.
Umrætt lán tengist ákæru í svonefndu Exeter-máli þar sem þrír fyrrum stjórnendur Byrs og MP banka eru ákærðir fyrir umboðssvik.
Bæði Ágúst Ármann og Jóhanna Waagfjörð báru, að þau hefðu fyrst heyrt af þessu láni á stjórnarfundi 19. desember þegar fjallað var um hvort framlengja ætti lánið og hækka það til að mæta vaxtagreiðslum.
Bæði sögðu þau að talað hefði verið um að lánið myndi þannig hækka í 1,1 milljarð króna og það yrði framlengt um 3 mánuði. Ekki hefði verið talað um að veita félaginu viðbótarlán til að kaupa stofnbréf í Byr af Birgi Ómari Haraldssyni, varamanni í stjórn Byrs, fyrir 200 milljónir króna.
Hvorugt hafði skýringar á að í fundargerð frá fundinum var
bókað að samþykkt hefði verið að lána félaginu 1,4 milljarða króna. Ágúst sagist ekki hafa undirritað fundargerðina á næsta fundi vegna þess að hann var þá erlendis. Jóhanna staðfesti að hafa undirritað fundargerðina en ekki veitt þessari upphæð sérstaka athygli þá
Jóhanna sagði, að stjórn sparisjóðsins hefði almennt ekki fjallað um lánveitingar en á þessum tíma hefði ríkt mikil óvissa og því hefði verið fjallað um lán í desember. Hún sagði, að lánið til Tæknisetursins Arkea hefði verið kynnt sem lán í vanskilum en ekki hefði verið gengið að veðum, eins og verið hefði um ýmis fleiri lán á þessum tíma. Ekki hefði hins vegar verið rætt um að lána félaginu nýja peninga.
Magnús Ægir Magnússon, sem var annar tveggja sparisjóðsstjóra Byrs þar til í desember 2008, sagði fyrir dómi, að upphaflega lánveitingin hefði með réttu átt að fara fyrir lánanefnd, sérstaklega
á þessum tíma þegar skortur var á lausafé og reynt var að passa upp á hverja einustu krónu. Fram kom hins vegar, að lánaheimild sparisjóðsstjóra á þessum tíma var 1,5 milljarðar króna.
Magnús Ægir sagði aðspurður að honum hefði verið sagt upp störfum hjá Byr og það hefði Jón Þorsteinn Jónsson, stjórnarformaður, gert.