Þegar ákveðið var að að Byr lánaði Exeter Holding fyrir kaupum á stofnfjárbréfum í Byr sparisjóði hafði enginn hagsmuni Byrs í huga, að sögn Björns Þorvaldssonar, saksóknara.
Saksóknari flytur nú málið gegn Ragnari Z. Guðjónssyni, fyrrverandi sparissjóðsstjóra Byrs, Jóni Þorsteini Jónssyni, fyrrverandi stjórnarformanns Byrs og Styrmi Þór Bragasyni, fyrrverandi forstjóra MP Banka, vegna Exeter málsins svokallaða.
Ragnar og Jón Þorsteinn eru ákærðir fyrir umboðssvik og Styrmir fyrir hlutdeild í því broti. Þá er Styrmir ákærður fyrir brot gegn lögum um peningaþvætti. Krafðist saksóknari 5 ára fangelsisdóms yfir þeim.
Í málflutningi sínum vitnaði saksóknari til framburðar ákærðu hjá lögreglu og fyrir dómi þegar hann málaði mynd af því sem á að hafa gerst þegar ákveðið var að leysa skuldavanda Ragnars, Jóns og annarra lykilstarfsmanna Byrs.
MP banki hafði ákveðið að gjaldfella myntkörfulán til starfsmannanna eða einkahlutafélaga þeirra og höfðu umræddir starfsmenn Byrs aðeins nokkra daga til að bjarga sínum málum. Ragnar sagði hjá lögreglu að á þessum tíma hafi örvænting ráðið miklu um hvaða ákvarðanir voru teknar, m.a. vegna ástandsins í þjóðfélaginu um hrun.
Á fundi í MP Banka var ákveðið að leysa vanda starfsmannanna með því að MP gjaldfelli lánin, taki þau stofnfjárbréf sem voru að veði fyrir lánunum og svo myndi Byr lána tilteknu fyrirtæki til að kaupa þau bréf af MP banka. Vildi Ragnar að kaupgengið yrði „ákveðið með manneskjulegum hætti“, en Styrmir Þór vildi hins vegar tryggja, að MP Banki fengi upp í lánin til umræddra starfsmanna Byrs.
Sagði saksóknari að það hafi í raun verið Styrmir Þór sem ákvað kaupgengið, en hafi vísað til meðalgengis síðustu kaupa MP Banka á stofnfjárbréfum. Hvorki Ragnar né Jón Þorsteinn sögðust hafa athugað hvort þetta verð væri rétt.
Saksóknari sagði, að Ragnar og Jón Þorsteinn hafi á þessum fundi haft hagsmuni lykilstarfsmanna Byrs í huga, enda hafi komið fram að MP Banki ætlaði að ganga að þeim ef ekki væri leyst úr skuldavanda þeirra. Styrmir Þór hafi haft hagsmuni MP Banka í huga, þegar hann vildi tryggja að bankinn fengi lán sín til starfsmanna Byrs greidd aftur. Enginn hafi hins vegar haft hagsmuni Byrs sparisjóðs í huga.
Engin athugun fór fram á greiðslugetu eða eignastöðu Exeter áður en ákveðið var að lána félaginu fé. Þá var ákvörðunin um lánveitingu ekki borin undir stjórn Byrs.
Síðar var ákveðið að fara ekki veðkallsleiðina heldur að Exeter keypti þau beint af starfsmönnum Byrs og félögum þeirra. Þá var ákveðið að félagið keypti einnig bréf sem voru í eigu MP Banka, en ekki starfsmanna Byrs eins og upphaflega var lagt upp með.