Styrmir Þór Bragason, fyrrum forstjóri MP Banka, gat ekki borið ábyrgð á ákvörðunum sem teknar voru af starfsmönnum Byrs enda í engri aðstöðu til þess að koma þar að málum að sögn verjanda hans Ragnars Hall í Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem Exeter-málið svonefnt er til umfjöllunar.
Ragnar sagði því út í hött væri að ákæra skjólstæðing hans fyrir umboðssvik enda hefði ekkert slíkt átt sér stað. Styrmir hefði þannig ekki getað lofað lánum frá Byr eins og saksóknari hafi haldið fram. Fyrir slíkum lánum hefði eðli málsins samkvæmt þurft að liggja fyrir samþykki stjórnenda sparisjóðsins.
Ennfremur andmælti Ragnar þeim málflutningi verjanda Ragnar Z. Guðjónssonar, fyrrum forstjóra Byrs, að ætla hafi mátt að lán til Exeter Holdings hafi verið til dótturfyrirtækis MP Banka og þar af leiðandi öruggari fyrir vikið. Starfsmenn Byrs séu sérfræðingar á sínu sviði og hafi átt að kanna þau mál til hlítar.
Þá sagði Ragnar ákæru um peningaþvætti ekki eiga við rök að styðjast. Engin hylming hafi átt sér stað eins og gert sé ráð fyrir í lögum og ávinningurinn af viðskiptunum hafi ekki runnið til Styrmis sjálfs heldur til MP Banka. Aðeins hafi verið um eðlileg viðskipti að ræða af hans hálfu.
Hvað skaðabótakröfu Byrs varðaði upp á 800 milljónir króna, þ.e. þá upphæð sem MP Banki hafði út úr viðskiptunum, væri alls ekki ljóst hvaða athafnir Styrmis eða athafnaleysi hafi átt að skapa honum skaðabótaskyldu. Ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi valdið Byr tjóni með gerðum sínum.
Ragnar vakti einnig málsá því að Byr hefði enga tilraun gert til þess að endurheimta umræddar 800 milljónir króna frá MP Banka og reyna þannig að lágmarka tjón sitt. Taldi hann liggja nær að reyna að sækja skaðabætur þangað en til skjólstæðings hans. Það hefði hins vegar ekki verið gert.
Fór hann fram á, líkt og aðrir ákærðu í málinu, sýknu en að öðrum kosti vægustu refsingu samkvæmt lögum.