Samanlagt bókfært virði Íslandsbanka, sem skilanefnd Glitnis á 95% hlut í, og Arion banka, sem skilanefnd Kaupþings á 87% hlut í, nemur um 200 milljörðum króna. Má lesa þetta úr útgefnum fjárhagsupplýsingum skilanefndanna tveggja.
Nýjustu fjárhagsupplýsingar skilanefndar Glitnis miðast við lok mars á þessu ári, en nýjustu upplýsingar frá skilanefnd Kaupþings miðast við síðastliðin áramót. Skilanefndir bankanna eru afar varfærnar í verðmati á eignum sínum. Því er ekki fráleitt að ætla að verðmæti bankanna sé nokkru meira en bókfært virði þeirra segir til um. Bókfært verðmæti bankanna hefur að sama skapi aukist jafnt og þétt hjá skilanefndunum, eftir því sem tíminn hefur liðið frá yfirtöku þeirra á ráðandi eignarhlutum í bönkunum.
Í gær lagði fjármálaráðherra síðan fram greinargerð um vegna skýrslu um endurreisn bankanna. Þar segir að endurreisn bankanna hefði kostað 156 milljörðum meira, hefði ríkið eignast alla bankana. En það er sú upphæð sem skilanefndirnar lögðu fram, að því er kemur fram í skýrslunni. Verðmæti eignarhluta skilanefndanna er því nú á bilinu 40-50 milljörðum króna hærra en sem nam fjárframlagi þeirra til að endurfjármagna bankana.