Kaupsýslumaðurinn Vincent Tchenguiz segir að hann þurfi að greiða lögfræðingum 2 milljónir punda á mánuði, um 375 milljónir króna, vegna málaferla og rannsóknar bresku efnahagsbrotalögreglunnar í kjölfar falls Kaupþings banka.
Breski viðskiptavefurinn cityam.com hefur eftir Tchenguiz að um 70% tíma hans fari nú í þessi málaferli, sem hafi stórskaðað fasteignaveldi hans.
Tchenguiz á nú í tveimur málaferlum gegn þrotabúi Kaupþings. Þá sætir hann rannsókn bresku efnahagsbrotalögreglunnar þótt hann hafi ekki verið ákærður. Hafa Vincent og Robert bróðir hans krafist dómsrannsóknar á aðgerðum lögreglunnar.
„Það gengur ekki allt sinn vanagang. Langt frá því. Við erum að leigja út skrifstofurými og endurskipuleggja reksturinn. Hugsanlega þurfum við að daga mjög úr viðskiptum við útlönd. Þetta hefur stórskaðað mannorð mitt. Viðskipti í Suður-Afríku, Kanada, Ísrael og Hollandi hafa öll verið fryst þar til niðurstaða fæst í þessu máli," hefur vefurinn eftir Tchenguiz.