Endurskoðun AGS samþykkt

Seðlabanki Íslands.
Seðlabanki Íslands. mbl.is/Ernir

Framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins samþykkti í dag fimmtu endurskoðun efnahagsáætlunar íslenskra stjórnvalda og AGS. Endurskoðanirnar eru alls sex þar sem tvær síðustu endurskoðanirnar verða sameinaðar í eina.

Seðlabankinn segir, að þessi afgreiðsla framkvæmdastjórnarinnar feli í sér að sjötti áfangi lánafyrirgreiðslu sjóðsins er til reiðu, eða 140 milljónir SDR. Það er jafnvirði um 225 milljóna Bandaríkjadala eða 25,7 milljarða íslenskra króna.

Áður hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn veitt lán sem nemur 980 milljónum SDR af 1,4 milljörðum SDR sem hann lánar í tengslum við áætlunina. Lánsfjárhæðin 980 milljónir SDR jafngildir tæplega 1,6 milljörðum Bandaríkjadala eða rúmlega 179,7 milljörðum króna. 

Íslenskum stjórnvöldum stendur einnig til boða öll sú lánafyrirgreiðsla sem Norðurlöndin höfðu boðað í tengslum við áætlunina, um 73 milljarðar króna, en dregið verður á þau lán eftir því sem nauðsyn krefur.

Í tengslum við endurskoðunina sendu stjórnvöld sjóðnum endurnýjaða viljayfirlýsingu. Að sögn efnahags- og viðskiptaráðuneytisins segir, að í  yfirlýsingunni komi fram að hagkerfið sé óðum að taka við sér og hagvöxtur verði árið 2011 í fyrsta sinn frá hruni. Þá fari einkaneysla vaxandi, verðbólga sé lítil, vöruskiptajöfnuður jákvæður og krónan hafi haldist stöðug. Helsta áskorunin framundan sé að draga úr atvinnuleysi.

Í viljayfirlýsingunni segir ennfremur að horfur greiðslujafnaðar séu nægilega sterkar til að styðja við afnám gjaldeyrishafta í áföngum. Þá sé þess vænst að bæði hlutfall skulda ríkissjóðs og erlendra skulda fari ört lækkandi.

Gögn í tengslum við endurskoðunina verða birt eftir helgi. Gert er ráð fyrir að núverandi efnahagsáætlun Íslands og AGS renni út í lok ágúst. 

Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir á vef ráðuneytisins, að staðfesting endurskoðunarinnar sé til marks um þann efnahagsbata sem grunnur hafi verið lagður að á undanförnum misserum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK