Ráðgjafafyrirtækið Arctica Finance hefur verið fengið til að sjá um sölu á 94% hlut slitastjórnar Byrs sparisjóðs í nýja Byr. Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins að eiginmaður formanns slitastjórnarinnar er framkvæmdastjóri Arctica Finance.
Tilkynnt var í vikunni, að sala slitastjórnar Byrs á um 94% hlut sínum í sparisjóðnum að hluta eða að
öllu leyti muni hefjast með formlegum hætti í næstu viku. Fram kom í fréttum Stöðvar 2, að MP banki hefur m.a. sýnt áhuga á að kaupa þennan hlut.
Formaður slitastjórnar Byrs er Eva Bryndís Helgadóttir, lögfræðingur hjá Mandat. Fram kom í fréttum Útvarpsins, að Arctica Finance hafi verið stofnað af hópi fyrrverandi starfsmanna Landsbankans. Einn þeirra sé Stefán Þór Bjarnason, eiginmaður Evu Bryndísar, en hann er jafnframt framkvæmdastjóri Arctica.
Í stjórn Arctica Finance eru Ástráður Haraldsson, sem starfar á lögmannsstofunni Mandat. Formaður stjórnarinnar
er Bjarni Þórður Bjarnason, sem var forstöðumaður fyrirtækjaráðgjafar
Landsbankans fyrir hrun og er móðurbróðir Evu Bryndísar.
Þriðji stjórnarmaðurinn er María Rúnarsdóttir.
Haft var eftir Jóni Finnbogasyni,
forstjóra Byrs, að fáir hafi komið til greina í þetta verk. Menn
hafi verið að sækjast eftir starfskröftum sérfræðinga og Arctica
Finance búi yfir þeirri þekkingu sem til þarf.
Tekið var fram í fréttum RÚV að það var stjórn
Byrs, en ekki slitastjórnin eða Eva Bryndís, sem tóku hina formlegu
ákvörðun um að fá Arctica Finance til verksins.