2% hagvöxtur

Landsframleiðsla jókst um 2,0% að raungildi milli 4. ársfjórðungs 2010 og 1. ársfjórðungs 2011. Borið saman við 1. ársfjórðung á síðasta ári jókst landsframleiðslan um 3,4%.  Landsframleiðsla dróst hins vegar saman um 1,5% milli þriðja og fjórða ársfjórðungs í fyrra.   

Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni dróst einkaneysla saman um 1,6%  á fyrsta ársfjórðungi samanborið við síðasta fjórðung ársins 2010 og fjárfesting um 6,8%. Samneysla jókst hins vegar um 0,1%. Útflutningur dróst saman um 8,2% og innflutningur um 4,1% á sama tímabili.  

Fjárfesting atvinnuvega dróst saman um 3,3% milli ársfjórðunga, fjárfesting hins opinbera um 20,9% og íbúðafjárfesting um 4,7% á sama tímabili. Miðað við sama fjórðung árið 2010 kemur aftur á móti fram 13,3% vöxtur í fjárfestingu á 1. ársfjórðungi.

Mikil aukning birgða er helsta ástæða þess að þjóðarútgjöld jukust um 5,1% á 1. ársfjórðungi borið saman við 4. ársfjórðung. Þjóðarútgjöld jukust um 5,5% miðað við samsvarandi tímabil árið áður. Segir Hagstofan, að birgðir hafi aukist um 21,3 milljarða á verðlagi ársins og muni þar mestu um mikla aukningu í birgðum sjávarafurða en birgðir hjá stóriðju hafi einnig aukist. Mikil aukning í birgðum sjávarafurða skýrist af miklum loðnuafla á 1. ársfjórðungi 2011.

Hagstofa Evrópusambandsins tilkynnti í morgun, að hagvöxtur á fyrstu þremur mánuðum ársins á evrusvæðinu svonefnda hefði verið 0,8% borið saman við ársfjórðunginn á undan. 

Hagvöxtur í Þýskalandi var 1,5% á fyrsta ársfjórðungi, í Svíþjóð var hagvöxtur 0,8% og í Bandaríkjunum 0,5%. 0,5% samdráttur varð í Danmörku og 0,4% samdráttur í Noregi.

Hagtíðindi Hagstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK