Skuldabréfaútgáfa íslenska ríkisins mun hefjast í þessari viku samkvæmt upplýsingum frá Barclays Capital. Ákveðið hefur verið að gefa út skuldabréf í Bandaríkjadölum til fimm ára. Verðmæti útgáfunnar nemur á bilinu 500 milljónum til eins milljarðs Bandaríkjadala. Orðrómur er um að vaxtaálag ofan á LIBOR-vexti verði á bilinu 325-370 punktar.
Álagið er hærra en skuldatryggingaálagið á íslenska ríkið um þessar mundir en það er um 200 punktar. Hinsvegar er það mat sérfræðinga sem mbl.is hefur rætt við að kjörin á útgáfunni hljóti að teljast vel ásættanleg, ekki síst með hliðsjón af stöðu mála hér á landi og erfiðu árferði á mörkuðum erlendis vegna skuldakreppunnar á evrusvæðinu.