Íslenska ríkið seldi skuldabréf fyrir einn milljarð Bandaríkjadala í útboði sem fór fram í dag. Áhættuálagið á skuldabréfin í útboðinu nemur 320 punktum umfram áhættulausa vexti.
Eins og fram kom á mbl.is í gær þá var afráðið fyrr í vikunni að ríkið myndi gefa út skuldabréfið í Bandaríkjadal og verðmæti útgáfunnar myndi nema á bilinu 500 til eins milljarðs dala. Upphaflega stóð til að viðmiðunarvextir í útboðinu yrðu 325 punktar en endanleg niðurstaða var 320 punktar.
„Þessi aðgerð markar heilmikil tímamót fyrir Ísland," segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, á vef fjármálaráðuneytisins.
„Ég er afar ánægður með að ríkissjóður sé aftur kominn á markað nú aðeins tveimur og hálfu ári eftir hrun. Það er sérstaklega ánægjulegt að það reyndist vera jafn mikil eftirspurn og raun ber vitni. Viðtökur fjárfesta styðja skoðun okkur á því að endurreisn efnahagslífsins sé að heppnast og horfurnar séu góðar. Með þessu er ríkið að brjóta vindinn og það ætti að auðvelda öðrum hið sama í framhaldinu.“
Fjárfestahópurinn samanstendur aðallega af fagfjárfestum frá
Bandaríkjunum og Evrópu. Skuldabréfaútgáfan kom í framhaldi af
vikulangri kynningarherferð í Bandaríkjunum og Evrópu. Umsjón var í
höndum Barclays Capital, Citi og UBS Investment Bank.