Skuldabréfaútgáfa ríkissjóðs Íslands í Bandaríkjunum í dag hefur vakið talsverða athygli. Breska blaðið Financial Times sagði í dag, að svo virtist sem fjárfestar væru farnir að treysta Íslandi á ný.
Ríkissjóður gaf í dag út skuldabréf að fjárhæð 1 milljarð Bandaríkjadala, jafngildi um 114 milljarða króna. Skuldabréfin bera fasta vexti og eru gefin út til 5 ára á ávöxtunarkröfunni 4,993% vöxtum. Kjörin jafngilda 3,20% álagi á vexti á millibankamarkaði. Eftirspurn nam um 2 milljörðum Bandaríkjadala.
Reutersfréttastofan fjallar í kvöld um íslensku skuldabréfaútgáfuna og einnig útgáfu ríkissjóðs Lettlands, sem einnig var sú fyrsta á alþjóðlegum markaði eftir að fjármálakreppan hófst.
Reuters hefur eftir Jóni Bjarka Bentssyni, hagfræðingi hjá Íslandsbanka, að þetta sé jákvætt skref fyrir Ísland. Fyrir tveimur árum hefði enginn þorað að láta sig dreyma um að hægt væri að gefa út skuldabréf á alþjóðamarkaði svo skömmu eftir bankahrunið og meðan gjaldeyrishöftin væru enn í gildi.
Segir Jón að útgáfan leggi grunn að því að íslensku bankarnir og fyrirtæki geti að nýju sótt lánsfé á alþjóðlega markaði.