Agnar Hansson, forstöðumaður markaðsviðskipta Arctica Finance, segir stjórnvöld ofmeta óþolinmæði þeirra eigenda aflandskróna sem eru fastir inni vegna haftanna og þar með nauðsyn gjaldeyrishaftanna.
Þetta kom fram í erindi sem Agnar hélt á ráðstefnu Íslandsstofu um gjaldeyrishöftin í gær og fjallað er um í Morgunblaðinu í dag. Hann varaði við því að gjaldeyrishöftin græfu undan trausti á efnahagslífinu og það eitt og sér hefði meiri áhrif á vilja eigenda aflandskróna til þess að losa sig við þær.
Agnar benti máli sínu til stuðnings á þróunina á gengi krónunnar á aflandsmarkaði. Þegar eigendur aflandskróna hefðu fundið möguleika á því að eiga tiltölulega óhindruð viðskipti með þær hefði gengi aflandskrónanna lækkað verulega og nálgast hið opinbera seðlabankagengi. Þetta hefði til að mynda gerst í fyrrasumar, en þá fór aflandsgengið niður í 205 krónur gagnvart evru. Í kjölfarið herti Seðlabankinn á höftunum og lokaði fyrir ýmis göt sem áður stóðu opin fyrir aflandsviðskipti og í framhaldinu fór aflandsgengið í 260. Eftir að tilkynnt var um gjaldeyrisútboð Seðlabankans í vetur hefur það hins vegar lækkað á ný og er nú í 215.