Mótormaxdómi fagnað en áhrif sögð lítil

Landssamband kúabænda er meðal þeirra sem fagnar dómnum.
Landssamband kúabænda er meðal þeirra sem fagnar dómnum.

Að sögn talsmanns Íslandsbanka er það mat sérfræðinga bankans að lánsformið sem Hæstiréttur dæmdi ólöglegt í Motormax-málinu svokallaða í vikunni sé ósambærilegt flestum lánsformum bankans. Hinsvegar mun bankinn gera gera frekari úttekt á lánasöfnum sínum með hliðsjón af dómnum og meta áhrif hans.

Hjá Arion-banka eru lögmenn að meta áhrif dómsins út frá því hvort og þá að hve miklu leyti hann mun hafa áhrif á lánasamninga bankans.

Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu mun dómurinn ekki hafa nein áhrif á eiginfjárþörf bankanna. Fulltrúar allra bankanna staðfesta þetta mat, en eins og fram hefur komið telur Landsbankinn að kostnaðurinn vegna dómsins muni verða um 16 milljarðar. Búið var að gera varúðarráðstafanir fyrir að úrskurður Hæstaréttar yrði á þennan veg.

Kúabændur og eigendur smábáta fagna dómnum

Ýmis hagsmunasamtök atvinnurekenda hafa fagnað niðurstöðu dómsins. Fram kemur í tilkynningu frá Landssambandi kúabænda að dómurinn geti haft verulega jákvæð áhrif á fjárhag bænda, til að mynda þeirra sem stofnað hafa einkahlutafélög um búreksturinn. Landssamband smábátaeigenda tekur í sama streng og telur að dómurinn leiði til þess að eigendur smábáta fái nú loks leiðréttingu sinna mála. Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að það sé von sambandsins að dómurinn hrindi af stað allsherjar leiðréttingu lána hjá öðrum lánastofnunum þar sem lán hafa verið greidd út í krónum.

Morgunblaðið ræddi við nokkra lögmenn í gær sem annast mál fyrir atvinnurekendur sem eru með sambærilega lánasamninga við Landsbankann og þann sem Hæstiréttur dæmdi ólöglegan. Þeir eru sammála um að dómurinn sé fagnaðarefni en hinsvegar benda þeir á að útfærslan á leiðréttingu kunni að verða flókin. Undir þetta mat er tekið í yfirlýsingu frá Landsbankanum vegna dómsins, en þar kemur að fram að framundan er mikil vinna við endurútreikning lána sem falla undir dóminn og má búast við að sú vinna taki talsverðan tíma.

Þrátt fyrir að bankarnir leggi á það áherslu að dómurinn og hugsanleg fordæmi hans grafi ekki undan eiginfjárstöðu þeirra með marktækum hætti þá er ljóst að hann kemur til með að hafa umtalsverð áhrif í bankakerfinu.

Verðtryggingarmisvægi bankanna versnar að öllum líkindum

Telja má líklegt að dómurinn komi til með að auka verðtryggingarmisvægi bankanna að því marki sem ólögmætu lánunum verður breytt í verðtryggð lán. Í nýjustu fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans er lýst yfir áhyggjum yfir þessu misvægi. Samkvæmt skýrslunni nam misvægið hjá viðskiptabönkunum tæpum 170 milljörðum króna um síðustu áramót en það er tilkomið vegna þess að eignir bankanna eru verðtryggðar í mun meiri mæli en skuldir þeirra. Í dag eru bankarnir að stærstum hluta fjármagnaðir með óbundnum og óverðtryggðum innlánum. Þetta misvægi gerir meðal annars að verkum að bankarnir hagnast verulega af verðbólguskotum en að sama skapi getur viðvarandi verðbólga leitt til þess að greiðslugeta lántakenda versni og þar af leiðandi gæði útlánasafna bankanna.

Færð sem erlend eign við útgáfu skuldabréfs

Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum voru lánin sem Hæstiréttur dæmdi ólöglega færð inn sem erlend eign þegar samningar voru gerðir um útgáfu gengistryggðs skuldabréfs sem Landsbankinn gaf út til þrotabúsins árið 2009. Hinsvegar segir Landsbankinn að þá hafi verið horft til þess að stór hluti erlendra lána væri til veikburða fyrirtækja með litlar eða engar erlendar tekjur í erlendri mynt – og því aðeins litið á hluta slíkra lána sem raunverulega gjaldeyriseign.
Áhrif á bankakerfið
» Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu mun dómurinn ekki hafa mikil áhrif á eiginfjárþörf bankanna.
» Landsbankinn telur kostnaðinn vegna hans nema um 16 milljörðum.
» Dómurinn mun sennilega auka verðtryggingarmisvægi bankanna, sem þýðir að þeir hagnast á verðbólguskoti.
» Verðtryggingarmisvægi bankanna var tæpir 170 milljarðar um áramót.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK