Að sögn talsmanns Íslandsbanka er það mat sérfræðinga bankans að lánsformið sem Hæstiréttur dæmdi ólöglegt í Motormax-málinu svokallaða í vikunni sé ósambærilegt flestum lánsformum bankans. Hinsvegar mun bankinn gera gera frekari úttekt á lánasöfnum sínum með hliðsjón af dómnum og meta áhrif hans.
Hjá Arion-banka eru lögmenn að meta áhrif dómsins út frá því hvort og þá að hve miklu leyti hann mun hafa áhrif á lánasamninga bankans.
Samkvæmt upplýsingum frá Fjármálaeftirlitinu mun dómurinn ekki hafa nein áhrif á eiginfjárþörf bankanna. Fulltrúar allra bankanna staðfesta þetta mat, en eins og fram hefur komið telur Landsbankinn að kostnaðurinn vegna dómsins muni verða um 16 milljarðar. Búið var að gera varúðarráðstafanir fyrir að úrskurður Hæstaréttar yrði á þennan veg.
Morgunblaðið ræddi við nokkra lögmenn í gær sem annast mál fyrir atvinnurekendur sem eru með sambærilega lánasamninga við Landsbankann og þann sem Hæstiréttur dæmdi ólöglegan. Þeir eru sammála um að dómurinn sé fagnaðarefni en hinsvegar benda þeir á að útfærslan á leiðréttingu kunni að verða flókin. Undir þetta mat er tekið í yfirlýsingu frá Landsbankanum vegna dómsins, en þar kemur að fram að framundan er mikil vinna við endurútreikning lána sem falla undir dóminn og má búast við að sú vinna taki talsverðan tíma.
Þrátt fyrir að bankarnir leggi á það áherslu að dómurinn og hugsanleg fordæmi hans grafi ekki undan eiginfjárstöðu þeirra með marktækum hætti þá er ljóst að hann kemur til með að hafa umtalsverð áhrif í bankakerfinu.