Skynsemissjónarmiðið hafði yfirhöndina við vaxtaákvörðun peningastefnunefndar í dag og var stýrivöxtum haldið óbreyttum. Þetta er álit Greiningardeildar Arion banka sem vonast til þess að skynsemin ráði áfram för hjá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands.
Segir í vefriti greiningardeildarinnar að þrátt fyrir að Íslendingar séu að upplifa eitt versta samdráttarskeið frá seinna stríði þá hefur verðbólgumarkmiði eingöngu verið náð í fjóra mánuði samfleytt og nú er verðbólgan aftur á uppleið. Þetta endurspegli hversu bitlaus peningastefnan er gagnvart þeim ytri þáttum sem hafa drifið hana áfram upp á síðkastið!
„Því má færa fyrir því rök að Seðlabankinn muni ekki hækka vexti vegna olíu- og hrávöruverðshækkana úti í heimi og jafnvel ekki heldur vegna veikingar krónunnar undanfarið (enda alls óvíst hvaða áhrif vaxtahækkun hefði á gengi krónunnar).
Ljóst er hins vegar að hinir nýju kjarasamningar fara ekki vel í nefndarmenn og allt stefnir í að stjórntækjum verði beitt sem refsingu vegna þeirra á næstu mánuðum.
Bit peningastefnunefndar hefur vissulega aukist með breytingum á skuldasamsetningu fyrirtækja og heimila, þar sem sífellt stærri hluti skulda er að færast yfir í óverðtryggðar krónur. Þegar við förum inn í nýtt hagvaxtarskeið telst þessi þróun jákvæð fyrir peningastefnuna og eykur líkur á því að stjórntæki Seðlabankans virki sem skyldi.
Hins vegar eru engin merki komin fram sem benda til þess að við séum að sjá sterkan viðsnúning í hagkerfinu og hvað þá að hætta sé á að þensluverðbólga líti dagsins ljós á næstunni. Að mati greiningardeildar endurspegla hagvaxtartölur á fyrsta fjórðungi ársins ef eitthvað er hversu brothættur bati er framundan, þar sem hagvöxtur er drifinn áfram af aukningu í loðnubirgðum á sama tíma og neysla heimila virðist vera á leið í aðra dýfu.
Ef peningastefnunefnd hækkar vexti ofan í þann brothætta efnahagsbata sem framundan er þá er sú hætta raunverulega fyrir hendi að vaxtahækkun hafi þveröfug áhrif og komi fram í aukinni verðbólgu og skili sér á endanum í hækkandi verðbólguvæntingum. Fyrirtæki eru enn mörg hver alltof löskuð og svigrúm til að taka á sig enn eina kostnaðarhækkunina er ekki til staðar – slík vaxtahækkun myndi því að öllum líkindum enda út í verðlagi til neytenda í stað þess að slá á verðbólgu. Í ljósi þessa vonar Greiningardeild að skynsemissjónarmiðið verði áfram efst í huga peningastefnunefndar og allt tal um hækkun vaxta verði látið hjá líða um nokkurt skeið og að veikur efnahagsbati fái áfram að njóta vafans.
Í versta falli þar til ný peningastefna hefur verið mótuð, en eins og fram kom á fundinum í dag mun seinni helmingur afnáms hafta ekki hefjast fyrr en sú stefna hefur verið mörkuð. Hins vegar er ekki hægt að loka augunum fyrir því að sýn peningastefnunefndar virðist vera önnur og trú hennar á virkni vaxtahækkunar á hluti eins og gengi og verðbólguvæntingar er önnur en hér er lýst," segir í vefriti Greiningardeildar Arions banka.