Eignir Skúla Þorvaldssonar, Hreiðars Más Sigurðssonar og Magnúsar Guðmundssonar eru á meðal þeirra eigna sem hafa verið kyrrsettar í Lúxemborg. Greint er frá þessu í Viðskiptablaðinu í dag en Morgunblaðið greindi frá kyrrsetningunum á laugardag án þess að greina frá því hverjir eigendur eignanna væru.
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru eignir fleiri en þeirra þriggja kyrrsettar en ekki hefur fengist staðfest um hverja til viðbótar er um að ræða.
Hluti kyrrsetninganna var framkvæmdur á grundvelli réttarbeiðni sem embætti sérstaks saksóknara sendi til rannsóknardómara í Lúxemborg í apríl síðastliðnum. Þær tengjast allar rannsókn þess á meintum brotum sem áttu sér stað innan Kaupþings fyrir og eftir bankahrun. Auk þess er hluti kyrrsetninganna bráðabirgðaaðgerðir sem gripið var til að beiðni yfirvalda í Lúxemborg.
Hreiðar Már var forstjóri Kaupþings fyrir bankahrun og Magnús stýrði Kaupþingi í Lúxemborg og Banque Havilland sem byggður var á grunni hans, þar til í maí í fyrra. Þá voru þeir báðir handteknir og úrskurðaði r í gæsluvarðhald vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á málefnum Kaupþings.
Skúli Þorvaldsson var stærsti einstaki skuldari Kaupþings í Lúxemborg fyrir bankahrun.
Heimildir Viðskiptablaðsins herma að réttarbeiðni sérstaks saksóknara hafi aðallega snúist um að fá eignir Skúla Þorvaldssonar og félaga, sem hann er skráður eigandi að, kyrrsettar.
Embættið telur að í félögunum sé að finna ágóða af gerningum sem mögulega varða við lög. Eitt af því sem verið er að skoða er hvort Skúli sé raunverulegur eigandi þessara félaga eða hvort hann hafi verið að leppa eignarhald þeirra fyrir aðra.