Fyrrum yfirmaður bandarísks banka var í dag dæmdur í átta ára fangelsi fyrir hlut sinn í 2,9 milljarða Bandaríkjadala, 340 milljarða íslenskra króna, fjársvikamáli.
Fjársvikin urðu þess valdandi að bankinn varð gjaldþrota árið 2009, samkvæmt upplýsingum frá bandaríska dómsmálaráðuneytinu.
Catherine Kissick sem var einn yfirmanna Colonial Bank játaði að hafa gerst sek um fjársvik meðal annars tengd skuldabréfum en auk hennar eru fleiri ákærðir í málinu.
Auk Kissick var önnur kona sem starfaði í bankanum dæmd í þriggja mánaða fangelsi fyrir hlut sinn í svikunum sem hófust árið 2002.
Meðal annars fólust svikin í því að færa fjármuni milli reikninga og sjóða til þess að fela tap. Í lokin var það bankinn sem sat uppi með verðlaus skuldabréf og endaði hann í gjaldþroti líkt og fleiri bandarískir bankar þegar kreppan dundi yfir. Meðal annars voru skuldabréf seld til Deutsche Bank og franska BNP
Paribas bankans.