Gengi evru lækkaði gagnvart Bandaríkjadal og jeni á gjaldeyrismörkuðum í Asíu í nótt. Í dag munu leiðtogar Frakklands og Þýskalands eiga fund í Berlín þar sem málefni Grikklands verða rædd.
Evran er nú skráð 1,4163 dalur og 113,97 jen. Það virðist því ljóst að markaðurinn hefur tekið lítið mark á ummælum Olli Rehn, sem fer með efnahagsmál hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, í gær um að væntanlega yrði ákvörðun um annað neyðarlán til handa Grikkjum frestað þar til um miðjan júlí.Telja sérfræðingar að það sé til lítils að fresta vandamálinu. Það sem muni gerast sé að fjárfestar reyni að losa sig við evruna.
Fjárfestar gera nú ráð fyrir því að takist grísku ríkisstjórninni ekki að koma í gegn harkalegum sparnaðar- og hagræðingaraðgerðum muni Grikkland ekki fá næsta hluta lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusambandinu og þar með ekki geta staðið skil á skuldum sínum.
Skuldatryggingarálagið á grísk ríkisskuldabréf hækkaði um heil 4,35 prósent í gær og fór í 21,89 prósent. Ávöxtunarkrafa á tveggja ára gríska ríkisvíxla fór upp í 30 prósent í gær, en þessar tvær tölur, skuldatryggingarálagið og ávöxtunarkrafan, bera þess merki að fjárfestar hafa litla sem enga trú á því að Grikkland nái að vinna sig úr þeim alvarlega vanda sem ríkið er í núna.
Skuldatryggingarálag á írsk og portúgölsk skuldabréf hækkaði einnig í gær og er um 8 prósent.
Óreiða einkennir nú grísk stjórnmál. Forsætisráðherrann, Georg Papandreou, hafði á miðvikudag sagst ætla að hrista upp í ríkisstjórninni, en í gær hætti hann við og hélt þess í stað ræðu í þinginu þar sem hann bað þingheim um að styðja sparnaðaráform ríkisstjórnarinnar.
Bandamönnum hans á þingi fer fækkandi, en áhrifamiklir þingmenn hafa hætt stuðningi við stjórnina.