Samkvæmt útreikningum bresku hugveitunnar Open Europe þá mun hvert heimili á evrusvæðinu ábyrgjast um 270 þúsund krónur árið 2014 vegna ríkisskulda Grikklands ef Evrópusambandið samþykkir að veita annað neyðarlánið á tveim árum vegna skuldakreppunnar í landinu.
Samkvæmt skýrslu Open Europe þá ábyrgist hvert heimili á evrusvæðinu nú þegar tæpar 100 þúsund krónur vegna lánveitinga stofnana ESB til Grikklands. Sem kunnugt er þá þarf ESB að tryggja nýtt neyðarlán á næstu vikum þannig að hægt verði að afstýra yfirvofandi greiðslufalli gríska ríkisins í júlí. Talað er um að það þurfi að vera um 120 milljarðar evra. Samkvæmt útreikningum Open Europe gæti frekari neyðarlán leitt til þess að hvert heimili ábyrgist lán til gríska ríkisins að andvirði tæpum 300 þúsund króna eftir þrjú ár.