Kolsvört skýrsla um gjaldþrot Eikar

Dönsk stjórnvöld gagnrýna fyrrum stjórnendur og ytri endurskoðendur færeyska bankans Eikar harðlega í nýrri skýrslu og boða, að þeir verði látnir svara til saka fyrir dómstólum. Bankinn tapaði nærri 3 milljörðum danskra króna, 67 milljörðum íslenskra króna, á nokkrum mánuðum. 

Opinberi tryggingasjóðurinn Finansiel Stabilitet, sem tók rekstur Eikar yfir sl. haust, segir í skýrslu um ástæður gjaldþrots bankans í september sl., að bæði fyrrum stjórnendur og endurskoðendur séu taldir hafa sýnt af sér óverjandi gáleysi.  

Í ljósi þessa hafi stjórn Finansiel Stabiletet komist að þeirri niðurstöðu, að rökstuddur grunur sé fyrir hendi um að fyrrum stjórnendur og ytri endurskoðendur hafi framið refsiverð brot í rekstri bankans á tímabilinu frá janúar 2005 til september 2010. 

Rannsóknin bendi til gáleysislegra lánveitinga, einkum til fasteignafyrirtækja í Þýskalandi og Danmörku og einnig til færeyskra fyrirtækja. Á sama hátt hafi ekki verið hugað að áhættustýringu og þetta séu helstu orsakir falls bankans. 

Niðurstaða skýrslunnar er m.a. að ytri endurskoðendur bankans, Hans Laksá hjá Nota Revision, Jens Ringbæk og Anders O. Gjelstrup  hjá Deloitte, hafi ekki endurskoðað reikninga bankans í samræmi við lög og góðar endurskoðunarvenjur.   

Lögmaðurinn Carsten Fode, sem stýrði rannsókninni, telur að þegar hefði átt að vera ljóst við hálfsársuppgjör Eikar 2009, að bankinn var við að falla.  Með því að halda rekstrinum áfram beri  stjórn, framkvæmdastjórn og endurskoðendur ábyrgð á áframhaldandi taprekstri bankans. 

Að sögn vefjar blaðsins Børsen eiga fyrrum stjórnendur og endurskoðendur yfir höfði sér háar bótakröfur frá danska tryggingasjóðnum.   

Skýrslan um gjaldþrot Eikar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK