Seðlabankar aðildarríkja evrusvæðisins eru í viðræðum við banka og önnur fjármálafyrirtæki um að þau endurfjármagni þau grísku ríkisskuldabréf sem eru í þeirra eigu þegar þau falla á gjalddaga. Samkvæmt fréttum myndu bankar samkvæmt þessu kaupa ný fimm ára ríkisskuldabréf sem myndu bera 5,8% fasta vexti. Markaðsvextir á grísk ríkisskuldabréf til fimm ára eru nú um 20% þannig að um verulega eftirgjöf væri að ræða.
Reuters-fréttastofan segir að seðlabankar Þýskalands, Frakklands, Spánar og Belgíu séu í viðræðum við eigendur grískra skuldabréfa í þessum löndum um að þeir endurfjármagni bréfin á gjalddaga. Samkvæmt Reuters myndi endurfjármögnunin fela í sér kaup á nýjum fimma ára grískum ríkisskuldabréfum sem myndu bera sömu kjör og lán björgunarsjóðs Evrópusambandsins til Grikklands, Írlands og Portúgal eða um 5,8% - reyndar voru vextir á Grikklandsláninu lækkaðir um 100 punkta í vetur.
Af þessu er ljóst að umtalsverða niðurgreiðslu á vöxtum er að ræða. Markaðsvextir á grískum ríkisskuldabréfum til fimm ára eru nú um 20% og skuldatryggingaálagið ríflega 2000 punktar. Álagið endurspeglar væntingar markaðarins um að það séu yfirgnæfandi líkur á því að gríska ríkið lendi í greiðslufalli á næstu fimm árum.
Það að evrópsk fjármálafyrirtæki samþykki að endurfjármagna 30 milljarða evra af grískum ríkisskuldabréfum sem eru á gjalddaga á næstu misserum er hluti útfærslunnar á nýju neyðarláni ESB til grískra stjórnvalda. Talið er að andvirði lánveitingarinnar muni nema um 120 milljörðum evra, það er að segja ef um það næst samstaða meðal aðildarríkja ESB.
Rétt er að taka fram að það er með öllu óvíst hvaða afleiðingar ofangreind endurfjármögnun kynni að hafa. Ekki er hægt að útiloka að matsfyrirtækin skilgreini hana sem greiðslufall í reynd hjá gríska ríkinu. Verði það raunin myndi það duga til þess að kveikja allsherjarfjármálakreppu í Evrópu.
Tíminn er naumur. Leiðtogar ESB hefja fundarhöld síðar í dag um útfærslu lánveitingarinnar. Hún þarf að liggja fyrir á næstu vikum ef afstýra á greiðslufalli gríska ríkisins í júlí. Forsenda þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn greiði út næsta hlut neyðarlánsins sem veitt var í fyrra er meðal annars sú að ESB tryggi að gríska ríkið sé að minnsta kosti fjármagnað til næstu tólf mánaða. Þar af leiðandi þarf að veita stjórnvöldum í Aþenu nýtt neyðarlán á næstunni. Til þess að gera stöðuna enn flóknari þá þarf gríska þingið að vera búið að samþykkja að hrinda umdeildum niðurskurðar- og aðhaldsaðgerðaáætlun í framkvæmd áður en til frekari lánafyrirgreiðslu ESB kemur.
George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, hefur lýst því yfir opinberlega að hann sé sannfærður um að þingið samþykki tillögurnar í næstu viku. Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar segir Reuters að Iveta Radicova, forsætisráðherra Slóvakíu, hafi sagt að Papandreou hafi í einkasamtali lýst yfir alvarlegum efasemdum um að þingið muni samþykkja tillögurnar. Ef það verður raunin blasir greiðslufall við gríska ríkinu strax í næsta mánuði.