Bandaríski kaupsýslumaðurinn og milljarðamæringurinn George Soros segir að það sé sennilega óhjákvæmilegt að eitthvert ríki yfirgefi evrusvæðið. Hann nefndi þó ekki neitt ákveðið ríki í því sambandi. Þetta kemur fram á fréttasíðu breska dagblaðsins Sunday Telegraph í dag.
Soros lagði áherslu á það í pallborðsumræðu um efnahagsmál sem fram fór í Vín, höfuðborg Austurríkis, í dag að evrusvæðið hefði verið gallað í grundvallaratriðum strax í byrjun þar sem ekki stæði eitt ríki að baki þess og sameiginlegur ríkissjóður.
Hann sagði að það þjónaði hagsmunum allra að Evrópusambandið lifði af þær efnahagshremmingar sem það glímdi við en að til þess þyrfti að koma á breytingum á uppbyggingu þess til þess að forða því frá yfirvofandi efnahagshruni.
„Það er engin varaáætlun í augnablikinu. Það er þess vegna sem stjórnvöld halda í óbreytt ástand og leggja áherslu á að viðhalda núverandi fyrirkomulagi í stað þess að viðurkenna að það séu grundvallar ágallar til staðar sem þurfi að leiðrétta,“ sagði Soros.