Verðbólga jókst verulega á öðrum fjórðungi ársins og er útlit fyrir að enn bæti í á næstu mánuðum, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
„Hagstofan birti í morgun vísitölu neysluverðs (VNV) fyrir júnímánuð og hækkaði vísitalan um 0,5% milli mánaða, lítið eitt umfram okkar spá (0,4% hækkun). Opinberar spár voru raunar á óvenju breiðu bili að þessu sinni, en þær hljóðuðu upp á hækkun á bilinu 0,2% - 0,6%.
Undanfarna 12 mánuði hefur VNV hækkað um 4,2% og hefur árstaktur verðbólgunnar ekki mælst hraðari síðan í ágúst í fyrra," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Veruleg hækkun matvöru er stærsti áhrifaþátturinn á hækkun vísitölu neysluverðs nú. Sér í lagi hækkuðu kjötvörur mikið í júní, og skýrir 6,9% hækkun þess liðar ein og sér 0,18% af hækkun VNV.
Alifuglakjöt hækkaði um 13,5% milli mánaða
„Athygli vekur að fuglakjöt, sem væntanlega er að stærstum hluta kjúklingakjöt, hækkaði um 13,5% á milli mánaða samkvæmt mælingum Hagstofu, en aðrar kjöttegundir hækkuðu einnig umtalsvert í verði í júnímánuði," segir í Morgunkorni.
Í júlímánuði munu takast á útsöluáhrif, sem jafnan vega til lækkunar VNV í þeim mánuði, og hækkunarþrýstingur vegna nýlegra kjarasamninga og gjaldskrárhækkana.
Þannig hefur Spölur tilkynnt um 10% hækkun gjalda fyrir Hvalfjarðargöng og einnig munu mjólkurvörur hækka um ríflega 4% í júlí.
„Hins vegar hefur verð á landbúnaðarvörum heldur verið að lækka erlendis, sem gæti vegið gegn áhrifum launahækkana á matvöruverð hér á landi. Þó virðist líklegt að árstaktur verðbólgunnar muni áfram fara hækkandi og gæti hann farið yfir 5% á haustmánuðum," segir í Morgunkorni.