Arðgreiðslur Landsvirkjunar til íslenska ríkisins gætu numið á bilinu 30-112 milljörðum króna á ári, að því er kemur fram í nýrri skýrslu sem GAMMA hefur unnið fyrir Landsvirkjun.
„Miðað við rekstraráætlanir LV, sem hér er unnið eftir, mun arðgreiðslugeta fyrirtækisins verða töluverð í framtíðinni ásamt stórauknum tekjuskattsgreiðslum þegar framkvæmdatímabili lýkur árið 2025. Samtals gætu greiðslur til ríkissjóðs orðið á bilinu 30-112ma króna á hverju ári, háð þróun rafmagnsverðs og hvort farið er í lagningu sæstrengs eður ei," segir í skýrslunni. Rekstraráætlun Landsvirkjunar gerir ráð fyrir að fjárfest verði fyrir 3,5 milljarða dollara á næstu 10 árum, eða sem nemur um 400 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Á árunum fimm eftir þann tíma er reiknað með að fjárfesta fyrir 1,6 milljarða dollara, eða 184 milljarða íslenskra króna.
Sérfræðingar GAMMA benda á að hægt sé að fjármagna skattalækkanir einstaklinga með arðgreiðslunum frá Landsvirkjun. Í skýrslunni segir að skattgreiðslur einstaklinga hafi staðið undir 20% af tekjum ríkisins að meðaltali á árunum 2001-2009. „Þannig gæti ríkissjóður lækkað tekjuskatt um helming, annaðhvort með því að lækka skattprósentuna sjálfa eða
hækka persónuafslátt, eða greitt hverjum Íslendingi kr. 280-320 þúsund krónur árlega með greiðslum frá LV á föstu verðlagi ársins 2011," segir í skýrslunni.