Lítil breyting varð á væntingum landsmanna til efnahags- og atvinnuástandsins hér á landi nú í júnímánuði frá fyrri mánuði.
Þannig mældist Væntingavísitala Gallup 65,4 stig og í raun var þróunin í þá átt að hún lækkaði lítillega frá því í maí, eða sem nemur um 1 stigi. Er gildi hennar jafnframt lítið eitt hærra en það mældist í júní í fyrra þegar vísitalan mældist 61,2 stig.
Er því ljóst að landinn er enn töluvert tortrygginn á efnahagsástandið hér á landi og þannig mun fleiri svartsýnir en bjartsýnir, en gildi vísitölunnar er undir 100 stigum þegar svo er raunin. Þetta má sjá í skýrslu sem Capacent Gallup sendi frá sér nú í morgun um væntingavísitölu sína fyrir júnímánuð, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Nokkuð mismunandi þróun er á undirvísitölum væntingavísitölunnar að þessu sinni. Þannig lækkuðu vísitölurnar sem mæla væntingar neytenda til ástandsins eftir 6 mánuði sem og mat þeirra á ástandinu í atvinnumálum. Lækkaði fyrrnefnda vísitalan um rúm 5 stig á milli maí og júní og mælist nú 94,5 stig, en sú síðarnefnda um tæp 3 stig og mælist 59,2 stig.
Á hinn bóginn hækkar mat neytenda á efnahagslífinu, en sú vísitala hækkar um tæp 3 stig milli mánaða og mælist 59,2 stig. Mat á núverandi ástandi hækkaði jafnframt þó nokkuð, eða um rúm 5 stig milli mánaða og mælist gildi þeirrar vísitölu nú 21,6 stig sem er hæsta gildi sem hún hefur náð frá því í október árið 2008.
„Engu að síður er ljóst að lund landans er enn fyrst og fremst bundin framtíðinni enda er gildi vísitölunnar fyrir mat á núverandi ástand enn mun lægra en gildið fyrir 6 mánaða væntingar," segir í Morgunkorni.
Skýrsla Capacent Gallup innheldur einnig niðurstöður úr ársfjórðungslegum mælingum á fyrirhuguðum stórkaupum og ef marka má þá könnun virðast stórkaup ólíkleg til að vaxa mikið á næstunni. Þannig mælist vísitalan um fyrirhuguð stórkaup nú í júní 46,8 stig og hefur hún ekki verið lægri síðan í mars fyrir ári síðan.
Nú síðast í
mars mældist vísitalan rúmu 1 stigi hærra en nú, og í júní fyrir ári var
hún rúmum 5 stigum hærri. Þess má geta að þessi vísitala hefur hæst
farið upp í 76,4 stig sem var í júní á hinu mikla
neysluári 2007.
Vísitalan fyrir fyrirhuguð stórkaup er meðaltal fyrir vísitölur bifreiðakaupa, húsnæðiskaupa og kaupa á utanlandsferðum. Allar þessar þrjár vísitölur lækka frá mælingunni í mars, en þó mismikið. Í stigum talið var lækkunin minnst á vísitölunni fyrir utanlandsferðir, sem mælir hversu líklegt er að einstaklingar komi til með að ferðast til útlanda á næstu 12 mánuðum.
Í raun er vísitalan nánast óbreytt frá síðustu mælingu sem var í mars, þ.e. mælist nú 122,4 stig en var 122,7 stig, en engu að síður hefur hún ekki verið lægri síðan í mars í fyrra. Ef marka má þessa vísitölu virðist því hafa dregið þó nokkuð úr ferðagleði landans frá því í fyrrahaust, en þessi vísitala hefur hæst farið í 136,4 stig frá hruni sem var í september í fyrra, segir í Morgunkorni.
Líkur á bílaviðskiptum minni en búast mátti við
„Sem kunnugt er hafa tölur Ferðamálastofu um brottfarir Íslendinga um Leifsstöð verið til marks um að stöðugt fleiri Íslendingar láti undan útþrá sinni og haldi erlendis. Má hér nefna að á fyrstu fimm mánuðum ársins höfðu rúmlega 125.100 Íslendingar haldið erlendis sem er aukning upp á 23% frá sama tímabili í fyrra.
Augljóslega hefði aukningin verið eitthvað minni ef ekki hefði verið fyrir eldgosið í Eyjafjallajökli sem hafði áhrif á flugsamgöngur í apríl og maí í fyrra. Þó kann að vera að gengi krónunnar, sem hefur veikst þó nokkuð á síðustu mánuðum, komi hér við sögu og dragi þar með úr ferðagleði landsmanna á erlendri grundu.
Vísitalan fyrir bifreiðakaup, sem metur líkurnar á því að einstaklingar muni kaupa sér bíl á næstu 6 mánuðum, mælist nú 13,1 stig. Líkt og með vísitöluna fyrir utanlandsferðir þá hefur hún ekki verið jafn lág síðan í mars í fyrra en þá mældist gildi hennar 12,5 stig. Frá hruni hefur þessi vísitala farið hæst í 23,1 stig sem var í júní á síðasta ári.
Það að vísitalan lækki nú og sé ekki hærri en raunin er miðað við í fyrra kemur nokkuð á óvart. Í þessu sambandi má t.d. benda á tölur um nýskráningar bifreiðar hér á landi sem hafa aukist stöðugt að undanförnu í mánuði hverjum m.v. sama tíma árið á undan.
Á fyrstu fimm mánuðum þessa árs höfðu samtals 2.200 bílar verið skráðir hér á landi samanborið við 997 í fyrra, sem jafngildir aukningu upp á 120%. Virðist því þessi vísitala, eins og vísitalan um utanlandsferðir, vera nokkuð úr takti við þróunina að undanförnu en þó vekur það upp spurningu hvort eitthvað bakslag kunni að vera í sigtinu í þessum efnum næsta misserið," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Ekki í samræmi við vísbendingar
Að lokum má hér nefna vísitöluna fyrir húsnæðiskaup sem mældist 4,8
stig nú í júní en hún hafði mælst 6,5 stig í mars. Á sama tíma í fyrra
mældist vísitalan 6,6 stig. Þessi vísitala metur líkur á því að
einstaklingur ráðist í húsnæðiskaup á næstu 6 mánuðum
og líkt og með hinar tvær, þ.e. utanlandsferðir og bifreiðakaup,
stingur þróun hennar í stúf við aðrar vísbendingar þess efnis enda hefur
þróunin á fasteignamarkaði verið þannig að veltan hefur verið að
stóraukast, auk þess sem húsnæðisverð virðist vera á
uppleið að nýju.