Brutu lánareglur en voru sýknaðir

Ragnar Zophonías Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Byrs sparisjóðs.
Ragnar Zophonías Guðjónsson, fyrrverandi forstjóri Byrs sparisjóðs. mbl.is/Kristinn

Meirihluti í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í Exeter-málinu svokallaða kemst að þeirri niðurstöðu í rökstuðningi sínum að Ragnar Z. Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, og Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður sparisjóðsins, hafi brotið gegn útlánareglum Byrs þegar þeir ákváðu að lána Tæknisetrinu Arkea (sem síðar varð Exeter Holdings) 800 milljónir króna til að kaupa stofnfjárbréf í Sparisjóðnum af starfsmönnum og stjórnarmönnum eða félögum í þeirra eigu.

Þeir hafi ekki metið greiðslugetu eða eignastöðu lántakans og þá hafi þeir verið vanhæfir til að ákveða lánveitinguna þar sem hún varðaði viðskipti þeirra sjálfra. Hins vegar hafi verið bærir til að taka ákvörðun um lán vegna kaupa á bréfum annarra starfsmanna sjóðsins.

Í rökstuðningi meirihlutans segir að þegar lagt er mat á hvort ákærðu hafi misnotað aðstöðu sína hjá sparisjóðnum eins og þeir eru ákærðir fyrir verði að skera úr um hvort ásetningur þeirra hafi staðið til þess.  Ragnar hafi, sem sparisjóðsstjóri haft heimild til að lána allt að 1.500.000.000 króna og mátti hann við ákvörðun um lánveitingu ganga þvert gegn lánareglum.  Þá var og komist að því að óvarlegt væri að líta svo á að ákærðu hefðu ekki tekið fullnægjandi veð fyrir láninu. 

„Þegar litið er til þessa er það niðurstaða dómsins að ósannað sé að ákærðu hefði á einhvern hátt mátt eða getað verið ljóst í byrjun október 2008 að þeir myndu með lánveitingunni binda sparisjóðinn þannig að hann biði fjártjón af.  Þeir hnökrar sem voru á lánveitingunni, og varða mat á greiðslugetu og eignastöðu lántakans og vanhæfni ákærðu til að koma að lántökunni, breyta ekki þeirri niðurstöðu.  Ákærðu brutu vissulega gegn verklagsreglum sparisjóðsins, en það eitt leiðir ekki til þess að ályktað verði að ásetningur þeirra hafi staðið til þess að misnota aðstöðu sína og stefna fé sparisjóðsins í stórfellda hættu eins og þeir eru ákærðir fyrir,“ segir í rökstuðningi meirihlutans, en undir hann skrifa Arngrímur Ísberg og Einar Ingimundarson.

Vildi sakfella Ragnar og Jón

Ragnheiður Harðardóttir, héraðsdómari, skilaði hins vegar sératkvæði þar sem hún fellst á þá niðurstöðu meirihlutans að sýkna beri Styrmi Þór Bragason, fyrrverandi bankastjóra MP banka af öllum liðum ákæru, en er ósammála meirihlutanum hvað varðar sýknu þeirra Jóns og Ragnars.
Segir í sératkvæðinu að ólíkt meirihlutanum telji hún að þeir hafi farið út fyrir heimildir sínar til lánveitinga og að lánið hafi verið veitt án fullnægjandi trygginga.

Ákærðu Jón og Ragnar byggðu vörn sína m.a. á því að Ragnar hafi sem sparisjóðsstjóri haft heimild til að taka einn ákvörðun um að lána allt að 1,5 milljarði króna og ganga þvert gegn lánareglum við þá ákvörðun. Segir í sératkvæðinu að sú túlkun sé í andstöðu við það sem kom fram hjá Ragnari við skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara 26. apríl 2010 er ákærði kvaðst ekki hafa haft heimild til að veita lán í andstöðu við lánareglur.

Hvað varðar veðin, en lánin voru veitt með veði í stofnfjárbréfum í Byr sjálfum, segir í sératkvæðinu að mikil óvissa hafi verið um gengi bréfa í Byr þegar lánið var veitt og að um áhættusama lánveitingu hafi verið að ræða.
„Við þessar aðstæður tóku ákærðu ákvörðun um og veittu 800.000.000 króna yfirdráttarlán til félags sem þeir þekktu ekki til, án þess að kanna stöðu þess eða greiðslugetu, en félagið reyndist hafa neikvæða eiginfjárstöðu. Lánið var veitt til kaupa á stofnfjárbréfum gegn veði í bréfunum sjálfum en engum tryggingum öðrum. Lánveitingin var ekki í samræmi við útlánareglur Byrs um mat á greiðslugetu og eignastöðu lántakanda og veðsetningarhlutföll tryggingaandlaga, auk þess sem mikil óvissa var um verðmæti bréfanna,“ segir í sératkvæði Ragnheiðar.

Að mati hennar verði, að þessu virtu, að líta svo á að ákærðu hafi með lánveitingunni misnotað aðstöðu sína í sparisjóðnum sjálfum sér og öðrum til ávinnings með þeim hætti að þeim hafi hlotið að vera ljóst að verulega fjártjónshætta stafaði af fyrir sparisjóðinn, sem hafi komið á daginn, því lánið fékkst ekki endurgreitt. Því telur hún að Jón og Ragnar hafi gerst sekir um þá háttsemi sem í ákæru greinir.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK