Auknar líkur á vaxtahækkun

mbl.is/Ómar

Seðlabanki Íslands segir, að líkurnar á því að á næstunni kunni að þurfa að hækka vexti til að tryggja að verðbólga og verðbólguvæntingar verði við markmið til meðallangs tíma hafi aukist.

Þetta kemur fram í greinargerð sem SÍ hefur sent ríkisstjórninni um verðbólgu sem er umfram fráviksmörk.  Þar segir að ein helsta ástæða aukinnar verðbólgu á undanförnum mánuðum sé hækkun hrávöru- og olíuverðs á alþjóðlegum mörkuðum, sem í sjálfu sér kalli ekki á aðgerðir í peningamálum.

Samkvæmt mælingu Hagstofu Íslands, sem birt var 27. júní, mældist tólf mánaða verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs 4,2% í júní, sem er meira en 1½ prósentu frá verðbólgumarkmiðinu. Fráviksmörk verðbólgumarkmiðsins hafa því verið rofin á ný eftir að verðbólga fór inn fyrir þau í september sl. og er það tilefni þessarar greinargerðar.

Í bréfinu segir að Seðlabankinn hafi talið meginorsakir vaxandi verðbólgu vera þætti sem séu ýmist tímabundnir eða utan áhrifasviðs peningastefnunnar. Meirihluti peningastefnunefndar bankans hafi í meginatriðum verið sammála þessu mati bankans. Í ljósi veikrar stöðu innlends þjóðarbúskapar hafi nefndin því haldið vöxtum óbreyttum á tveimur síðustu vaxtaákvörðunarfundum, þrátt fyrir vaxandi verðbólgu og hækkandi verðbólguvæntingar.

„Þó hafa áhyggjur nefndarinnar af verðbólguhorfum smám saman farið vaxandi og sumir nefndarmenn talið þörf á að nú þegar verði byrjað að auka aðhald peningastefnunnar á ný. Á aprílfundi nefndarinnar vildi einn nefndarmaður hækka vexti og á júnífundi hennar var ákveðið að breyta skilaboðum nefndarinnar um næstu skref á þann veg að líklegra yrði að vextir hækkuðu á næstunni en að þeir lækkuðu. Líkur á því að á næstunni kunni að þurfa að hækka vexti til að tryggja að verðbólga og verðbólguvæntingar verði við markmið til meðallangs tíma hafa því aukist,“ segir í bréfinu.

Þá kemur fram að næsti vaxtaákvörðunarfundur peningastefnunefndar sé17. ágúst nk.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK