Embættismenn Evrópusambandsins og ráðherrar einstakra Evrópusambandsríkja hafa gagnrýnt matsfyrirtækið Moody's harðlega fyrir að lækka lánshæfiseinkunn portúgalska ríkisins niður í ruslflokk.
José Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði að lækkunin fæli í sér hlutdrægni og gaf til kynna, að evróskt matsfyrirtæki kæmi fram, til mótvægis við stóru matsfyrirtækin, sem flest eru með höfuðstöðvar í Bandaríkjunum.
Barroso sagði, að tímasetning Moody's hefði verið afar óheppileg og ummæli fyrirtækisins væru óskýr og ykju enn á óvissuna.
Gengi evrunnar hefur lækkað í dag og skuldatryggingarálag portúgalska ríkisins hækkað. Einnig hefur skuldatryggingaálag Spánar og Ítalíu hækkað í dag.
Wolfgang Schäuble, fjármálaráðherra Þýskalands, sagði að tímabært væri að draga úr valdi og áhrifum matsfyrirtækjanna.
Stavros Lambridinis, utanríkisráðherra Grikklands, tók í sama streng.