Þingmenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í fjárlaganefnd Alþingis segja afkomu ríkissjóðs fyrstu fimm mánuði ársins gefa ranga mynd af raunveruleikanum.
Mikilvæga þætti vanti inn í uppgjörið svo sem áhrif kjarasamninga og framlög til Íbúðalánasjóðs sem hlaupi á tugum milljarða. Þá á eftir að leggja fram tugi milljarða vegna yfirtöku Landsbankans á SpKef.
Samkvæmt yfirliti fjármálaráðuneytisins drógust tekjur ríkissjóðs saman um 1,5% á fyrstu fimm mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra. Gjöld drógust einnig saman, um 6,1%. Tekjuhalli ríkissjóðs á þessu tímabili er kominn í 27 milljarða króna, en áætlun fjárlaga fyrir allt árið hljóðaði upp á 37 milljarða króna halla.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segist Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, óttast að áætlanir í ríkisfjármálum muni ekki halda. Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknar í fjárlaganefnd, segir stöðuna afleiðingu aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar.