Miðað við horfur í einkaneyslu og fjárfestingu er líklegt að magn og
verðmæti sjávarafurða muni gera útslagið um hvort og þá hversu mikill
vöxtur verði í íslensku efnahagslífi á næstu misserum. Þetta kemur fram í nýrri umfjöllun hagdeildar Samtaka atvinnulífsins.
„Það skýtur því skökku við að á sama tíma gangi stjórnvöld fram fyrir skjöldu og leggi til breytingar á stjórn fiskveiða sem draga verulega úr rekstrarhagkvæmni fyrirtækja í sjávarútvegi og leiða til minnkandi verðmætis sjávarfangs.
Slík stefna gengur þvert á markmið nýgerðra kjarasamninga um styrkingu gengis krónunnar, hjaðnandi verðbólgu og aukinn kaupmátt launa."
Þetta kemur m.a. fram í umfjöllun hagdeildar SA um hagvaxtarhorfur.
Samkvæmt nýlegri mælingu Hagstofu Íslands jókst landsframleiðsla um 2,0% að raungildi milli 4. ársfjórðungs 2010 og 1. ársfjórðungs 2011, eftir 1,5% samdrátt ársfjórðunginn á undan. Þjóðarútgjöld jukust um 5,1% sem skýrist að mestu af mikilli aukningu birgða. Einkaneysla dróst saman um 1,6% og fjárfesting um 6,8%. Samneysla jókst hins vegar um 0,1% í kjölfar samfellds samdráttar frá miðju árin 2009. Útflutningur dróst saman um 8,2% og innflutningur um 4,1% á sama tímabili.
„Stjórnvöld hafa túlkað þessar tölur sem teikn um að botni efnahagslægðarinnar hafi verið náð og að framundan sé vöxtur í efnahagslífinu. Það er þó ekki útséð með það í ljósi þess að væntingar um betri tíð á grundvelli ársfjórðungslegra talna Hagstofunnar um þjóðarbúskapinn hafa á undangengnum misserum ekki gengið eftir. Því er ástæða til að skoða nánar þá efnahagsþætti sem landsframleiðslan byggir á," segir enn fremur.