Í gær var haldinn neyðarfundur á vegum Evrópusambandsins vegna efnahagsástandsins á Ítalíu, en óttast er að Ítalía sé á leið í svipuð fjárhagsvandræði og Grikkland hefur verið að glíma við.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segir, að allir helstu hlutabréfamarkaðir heims hafa lækkað umtalsvert í kjölfar þessara frétta og hefur ástandinu á mörkuðum verið lýst sem örvæntingarfullu. Ítalska kauphöllin hefur gripið til neyðarúrræða eins og að stöðva tímabundið viðskipti með ákveðin hlutabréf.
Fjármálaráðherrann, Giulio Tremonti, hefur sætt harðri gagnrýni vegna þess hve harkaleg hagræðingaráætlunin er. „Ef ég fell þá fellur Ítalía. Ef Ítalía fellur þá fellur evran. Þetta er keðja,“ hefur Financial Times eftir Tremonti.