Vaxandi verðbólga síðustu mánuði er að stórum hluta svokölluð kostnaðarverðbólga, að sögn Þorbjörns Atla Sveinssonar, hagfræðings hjá greiningardeild Arion banka. Kostnaðarverðbólga kemur til þegar fyrirtæki velta auknum kostnaði – hvernig sem hann er til kominn – út í verðlagið sem leiðir til hækkunar á neysluverðsvísitölu. Þessi verðbólga er því strangt til tekið ekki eftirspurnardrifin.
Hefðbundin viðbrögð Seðlabankans við aukinni verðbólgu eru hækkun stýrivaxta og í viðtölum við erlenda fjölmiðla um helgina sagði Már Guðmundsson seðlabankastjóri að líkur á vaxtahækkunum í haust væru mun meiri en fyrir nokkrum mánuðum.
Þorbjörn Atli segir hins vegar að vaxtahækkun ofan á kostnaðarverðbólgu geti leitt til meiri verðbólgu en ekki minni. „Þegar aukinn fjármögnunarkostnaður (vegna vaxtahækkana) bætist ofan á aukinn launakostnað og eftir atvikum aukinn innflutningskostnað verður að gera ráð fyrir því að fyrirtæki velti þessum vaxtakostnaði út í verðlag og þá hækkar neysluverðsvísitalan.“
Gylfi Zoëga slær á svipaða strengi í nýlegri grein í Vísbendingu, sem ber heitið Vextir og verðbólga í skuldakreppu. Þar segir hann að kreppan, sem þjóðin glímir nú við sé skuldakreppa, sem lamar fjárfestingar og mannaráðningar fyrirtækja og rýrir lífskjör heimila.
Við þessar aðstæður segir Gylfi að vaxtahækkun geti aukið skuldabyrðina og gert baráttuna harðari.
Til að skapa frið á vinnumarkaði, draga úr verðbólgu og til að auðvelda fyrirtækjum og heimildum að minnka skuldir sínar þurfi að ná vaxtastigi niður. Fyrr byrji hagkerfið ekki að vaxa af krafti.
Gylfi segir reyndar að ef gengi krónunnar veikist um of geti verið æskilegt að hækka stýrivexti til að tryggja jákvæða raunávöxtun innlendra peningalegra eigna, en slík vaxtahækkun yrði dýru verði keypt.