Niðurstaða í öðru gjaldeyrisútboði Seðlabankans til eigenda aflandskróna var að mörgu leyti í samræmi við útkomu fyrsta útboðsins, og virðist sem þessi þáttur í afléttingu gjaldeyrishafta sé kominn í tiltekinn farveg, hvað varðar verð, magn og tíðni útboða næsta kastið. Það hlýtur að teljast jákvætt, en ljóst má þó vera að fleiri þættir þurfa að koma til svo draga megi nægilega mikið úr lausum krónueignum erlendra aðila til þess að hægt sé að ráðast í almenna afléttingu hafta, segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Í útboðinu bárust alls tilboð að fjárhæð 52,2 milljarða króna og var tilboðum tekið fyrir 14,9 milljarða króna, sem var í samræmi við markmið Seðlabankans. Lágmarksverð samþykktra tilboða var 215 kr. á hverja evru líkt og í fyrsta útboðinu. Meðalverðið nú var hins vegar nokkru lægra en þá, 216,33 kr. á móti 218,89 í fyrsta útboðinu. Seðlabankinn tók tilboðum yfir lágmarkinu að fullu, en tilboð sem voru jöfn lágmarksverðinu voru samþykkt hlutfallslega sem nam 44% af upprunalegri fjárhæð.
„Spyrja má hvers vegna bankinn kaus að taka síðarnefndu
tilboðunum aðeins að hluta, fremur en að hækka fjárhæð tekinna tilboða.
Vera má að hann vilji stilla framboði króna í hóf í seinni legg
viðskiptanna sem fyrirhugaður er í ágúst, en þá munu lífeyrissjóðir
væntanlega kaupa verðtryggð ríkisbréf sem samsvarar þeirri krónufjárhæð
sem Seðlabankinn fékk í útboði gærdagsins og greiða fyrir með gjaldeyri.
Þannig aflar bankinn aftur þess gjaldeyris sem greiddur verður úr forða
hans fyrir aflandskrónurnar samkvæmt útboði gærdagsins," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.
Sem fyrr segir hefur Seðlabankinn þegar tilkynnt að seinni leggur þess skrefs sem stigið var að hálfu í gær muni fara fram eftir fyrstu viku ágústmánaðar. Næsta útboð til aflandskrónueigenda er svo fyrirhugað í september. Að því gefnu að vel takist til með seinni legginn í ágúst munu u.þ.b. 28 milljarðar króna hafa skipt um hendur í kjölfar þess, og farið frá innlánsreikningum aflandskrónueigenda yfir í verðtryggð ríkisskuldabréf í eigu lífeyrissjóðanna.
„Betur má þó ef duga skal, enda áætlaði Seðlabankinn lauslega í vetur að óþolinmóðar krónueignir gætu numið á bilinu 155-185 mö.kr. Ekki er úr vegi að ætla að lífeyrissjóðirnir muni leggja til gjaldeyri sem nemur á bilinu fjórðungi til þriðjungi þeirrar fjárhæðar, en þó er ljóst að einnig þarf að hrinda í framkvæmd öðrum þáttum í fyrri hluta afléttingaráætlunar Seðlabankans svo draga megi nægilega úr fjárhæð aflandskróna til þess að hægt sé að ráðast í almenna afléttingu haftanna," segir í Morgunkorni.