Órói og óvissa settu mark sitt á heimsmarkaði í gær, en áhyggjur af skuldastöðu Evrópuríkja, einkum Ítalíu í þetta skiptið, höfðu mikil og neikvæð áhrif á skuldabréfa- og hlutabréfamarkaði fram eftir degi, en þróunin varð þó öllu jákvæðari þegar líða tók á.
Í umfjöllun um þetta ástand í Morgunblaðinu í dag segir, að orðrómur sé uppi um að Seðlabanki Evrópu hafi gripið inn í með því að kaupa upp mikið magn af ítölskum ríkisskuldabréfum og þar með lægt mestu öldurnar og slegið á áhyggjur fjárfesta um sinn.
Fjármálaráðherrar ESB gáfu einnig sterklega í skyn að björgunarsjóð ESB mætti nota til að kaupa upp ríkisskuldabréf.