Matsfyrirtækið Fitch tilkynnti í dag, að það ætlaði að lækka lánshæfiseinkunn gríska ríkisins um þrjá flokka, úr B+ í CCC.
Fitch segir, að ástæðan sé vaxandi óvissa um hvaða hlutverk einkafjárfestar muni leika í endurskipulagningu skulda gríska ríkisins. Þá liggi ekki fyrir ný áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópusambandsins um Grikkland.
Þá lýsir Fitch áhyggjum af einkavæðingaráformum Grikklandsstjórnar, sem ætlar að afla 30 milljarða evra með sölu eigna. Ólíklegt sé að það markmið náist og að styðja þurfi áætlun um fjárhagslega endurskipulagningu með trúverðugri stefnu.
Grísk stjórnvöld lýstu undrun yfir ákvörðun matsfyrirtækisins þar sem tímasetningar í björgunaráætlun Evrópusambandsins væru skýrar.