Stuðningur við upptöku evru virðist vera að dvína meðal danskra hagfræðinga, að því er segir í frétt danska blaðsins Politiken.
Hingað til hafa hagfræðingar hjá dönskum bönkum almennt verið fylgjandi því að Danir kasti krónunni og taki upp evruna. Þróun mála á evrusvæðinu undanfarna mánuði hefur hins vegar orðið til þess að margir hagfræðingar hafa skipt um skoðun. Eru það skuldavandræði einstakra ríkja eins og Grikklands, Portúgals og Írlands sem valda áhyggjum meðal hagfræðinga, en ekki síður áhrif þessara vandræða á evruna sjálfa.
„Fleiri rök eru nú með því að betra sé að vera fyrir utan evruna,“ segir aðalhagfræðingur Danske Bank, Frank Øland Hansen.
„Lán sem illa stödd ríki hafa fengið í gegnum björgunarpakka verða ekki endilega greidd til baka þannig að það hentar Danmörku betur að standa fyrir utan og greiða þar með minni hluta af þessum kostnaði.“