Búist er við að stjórnvöld á Ítalíu muni í dag gera tilraun með að selja ríkisskuldabréf í því skyni að kanna möguleika ríkisins til þess að halda áfram að fjármagna sig á markaði. Hins vegar þykir ljóst að jafnvel þó salan á bréfunum gangi vel hverfi ekki áhyggjur af efnahagsmálum Ítala til lengri tíma litið.
Fjármálaráðuneyti Ítalíu hyggst halda fjögur útboð í dag á skuldabréfum með föstum vöxtum að upphæð á milli 3-5 milljarða evra. Mikilvægt er að vel takist til að sögn Reuters fréttaveitunnar, ekki aðeins fyrir Ítalíu sjálfa sem vill gjarnan sýna fram á að landið sé ekki í sömu vandræðum og Grikkland, Írland og Portúgal, heldur einnig fyrir evrusvæðið í heild.
Ef útboð gengur á hinn bóginn illa gæti það haft mjög slæmar afleiðingar að sögn Silvio Peruzzo, hagfræðings hjá Royal Bank of Scotland.