Öll stærstu fyrirtækin sem Landsbankinn hefur selt frá sér undanfarið hafa með einum eða öðrum hætti farið í hendur Framtakssjóðs Íslands. Þriggja milljarða króna fjárfesting Framtakssjóðsins í Icelandair er í raun einu kaup hans á fyrirtækum þar sem Landsbankinn hefur ekki verið seljandinn.
Í fyrra keypti Framtaksjóðurinn eignarhaldsfélagið Vestia af Landsbankanum fyrir tæpa sextán milljarða króna en í viðskiptunum eignaðist svo bankinn jafnframt hlut í sjóðnum. Með kaupunum á Vestia eignaðist Framtaksjóðurinn nokkur af stærri og þekktari fyrirtækjum landsins: Iceland Group, Húsasmiðjuna, Plastprent og Teymi, sem er móðurfélag Vodafone, Skýrr, EJS og HugarAX.
Nú í vikunni keypti svo Framtakssjóðurinn 40% hlut í fyrirtækinu Promens af Horni, sem er dótturfélag Landsbankans. Aðdragandi þeirrar sölu er að Atorka, sem nú er í nauðasamningum og Landsbankinn er stærsti kröfuhafi í, átti Promens að stærstum hluta. Horn átti einnig í Atorku. Landsbankinn lét svo hlut Horns í Atorku til annarra kröfuhafa og fékk í stað allt hlutafé í Promens á móti, að undanskildum hlut Horns. Í framhaldinu seldi svo Horn Framtakssjóðnum 40% hlut í Promens. Kaupverð hlutarins mun vera 6,6 milljarðar og er að hluta í formi hlutafjáraukningar sem verður nýtt til lækkunar skulda og til fjárfestinga. Örðugt er að átta sig á kaupverðinu þar sem Promens hefur ekki enn skilað inn ársreikningi fyrir árið 2010 samkvæmt ársreikningaskrá Ríkisskattstjóra.