„Það er tími til kominn að Evrópa vakni, segir forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, í viðtali við gríska dagblaðið Kathimerini í dag.
Aðildarríki myntbandalags Evrópu þurfa að komast að samkomulagi um lausn skuldavanda ríkja innan svæðisins til þess að koma í veg fyrir þrot gríska ríkisins. Að öðrum kosti er hætta á að önnur stærri ríki standi frammi fyrir svipuðum vanda og gríska ríkið.
Ekki tókst að ná samkomulagi meðal fjármálaráðherra evru-ríkjanna í síðustu viku um nýjan björgunarpakka fyrir Grikkland. Í kjölfarið lækkuðu hlutabréfavísitölur í Evrópu og staða evrunnar veiktist enn frekar.
Sérfræðingar hafa varað við því að fleiri ríki, svo sem Ítalía og Spánn geti staðið frammi fyrir svipuðum skuldavanda og Grikkir ef ekkert verði að gert. Því verði að grípa inn í eins fljótt og auðið er.Forseti Evrópusambandsins, Herman Van Rompuy, segir að ráðstefna leiðtoga ríkjanna á fimmtudag muni snúast um að koma stöðugleika á ný á evru-svæðinu og framtíð fjármögnunar Grikklands.
ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykktu í maí í fyrra að björgunarpakka fyrir Grikklands sem er metinn á 110 milljarða evra. Á móti var grískum stjórnvöldum gert að grípa til róttækra aðgerða til þess að draga úr opinberum útgjöldum. En þetta dugði ekki til og er nú verið að undirbúa annan björgunarpakka fyrir Grikki.
Eins hefur þurft að koma írska og portúgalska ríkinu til bjargar.