Huldufélagið Pace Associates í Panama var skúffufélag sem Landsbankinn í Lúxemborg útbjó þegar hann var kominn út fyrir heimildir sínar til að lána beint til fasteignasjóðs á Indlandi. Baugur, Hannes Smárason og Kevin Stanford voru meðal hluthafa í sjóðnum. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Hinn 24. apríl 2007 lánaði Fons félaginu Pace Associates þrjá milljarða
króna og voru peningarnir millifærðir inn á reikning Pace hjá
Landsbankanum í Lúxemborg, samkvæmt millifærslukvittun í bókhaldi Fons.
Lánið átti að greiða til baka í apríl 2010 en engin greiðsla barst.
Óskar
Sigurðsson, skiptastjóri Fons, hefur nú í á annað ár verið að reyna að
komast að því hvað varð um peningana, en Pálmi Haraldsson, sem var
aðaleigandi Fons, gaf þær skýringar í skýrslutöku hjá skiptastjóranum að
Pace hafi fjárfest í fasteignaverkefnum á Indlandi og millifærslan inn á
reikning Pace hafi verið lánveiting til þessa sama verkefnis.
Pálmi
Haraldsson sagði við fréttastofu að Hannes Smárason og Landsbankinn í
Lúxemborg hefðu kynnt verkefnið fyrir sér á sínum tíma. Pálmi gat ekki
svarað því um hvaða fasteignaverkefni hefði verið að ræða og hvar á
Indlandi félagið hefði fjárfest.
Eins og komið hefur fram er
millifærslan frá Fons til Pace nú til rannsóknar, en Ólafur Þór
Hauksson, sérstakur saksóknari, staðfesti við fréttastofu að þriggja
milljarða króna lánveiting frá Fons til Pace Associates væri til
rannsóknar hjá embættinu en vildi ekki tjá sig að öðru leyti um málið.
Stöð 2 hefur hins vegar heimildir fyrir því að meðal gagna sem embættið
hafi undir undir höndum séu skjöl sem tengi Hannes Smárason við félagið
Pace Associates.